Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:01:55 (4011)

2004-02-10 15:01:55# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhanna Sigurðardóttir, 1. flm. þessarar þáltill. okkar hefur gert góða og skýra grein fyrir málinu. Ég tek undir hvert orð hennar og kannski sérstaklega þá brýningu að hér sé út af fyrir sig nóg talað og fyrst og fremst aðgerða þörf og óviðunandi að hér sé einfaldlega aftur og aftur boðað að bráðum sé von á skýrslum. Út af fyrir sig er líka hægt að taka undir margt annað sem komið hefur fram í máli manna við þessa umræðu. Og ég vil lýsa ánægju minni með það að hæstv. félmrh. skuli hafa fært í tal það vaxandi atvinnuleysi og þær blikur á lofti sem við sjáum í atvinnumálum því það er sannarlega ekki alltaf sem ráðamennirnir og þeir sem fara fyrir eru tilbúnir til þess að viðurkenna vanda og vaxandi vanda og aðsteðjandi vá eins og ráðherrann sannarlega gerir með því að vekja sérstaklega athygli á því að hér er vaxandi atvinnuleysi. Það er vaxandi vandi þó að kannski hafi ekki verið dregnar réttar ályktanir af því einmitt í þessari ræðu, en ég held að það hafi fyrst og fremst verið óheppileg tenging að tengja það að vaxandi atvinnuleysi kallaði á það að við hækkuðum atvinnuleysisbæturnar því að vaxandi atvinnuleysi hlýtur auðvitað fyrst og fremst að kalla á vinnumarkaðsaðgerðir og það að vinna að því að fólk komist úr þeirri stöðu að vera atvinnulaust fremur en að kalla á sérstaka hækkun bótanna. Bæturnar þurfa hins vegar hækkunar við en það er auðvitað algjörlega óháð því hvort það eru fáir eða margir sem þurfa að búa við þau lífskjör.

Við höfum, margir þingmenn, ítrekað vakið athygli á því að þessi lífskjör, 77 þús. kr. á mánuði, væru algerlega óþolandi í því velmegunarsamfélagi sem við þó búum í og ég fagna því að ráðherra skuli taka undir þau sjónarmið og lýsa því yfir að atvinnuleysisbætur hafi dregist verulega aftur úr öðrum bótum. Og þar kveður við allt annan tón en fyrir tveimur mánuðum í umræðunni um fjárlögin þegar ráðherrann sá helst ástæðu til að fara með niðurskurðarhnífinn á þennan hóp og þessar litlu bætur. Ég skil það svo að hér sé ráðherrann að gefa um það yfirlýsingu að hann ætli að fylgja því eftir persónulega sem félagsmálaráðherra, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að þessar bætur verði hækkaðar umtalsvert. Ég get ekki skilið orð hans hér, um að atvinnuleysisbætur hafi dregist verulega aftur úr öðrum bótum og að það kalli á að þær verði endurskoðaðar, öðruvísi en svo að hæstv. félmrh. ætli að beita sér fyrir því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar verulega. Ég bið hæstv. ráðherra um að leiðrétta mig ef sá skilningur er ekki réttur hjá mér.

Í öðru lagi er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni en ég held að það sé mikilvægt að hann upplýsi okkur um hvaða tíma hann ætlar mönnum í þá endurskoðun og hvenær við megum búast við að athafnir fylgi orðum hans í dag og að við fáum að sjá hér í þinginu tillögur um umtalsverðar hækkanir á atvinnuleysisbótum.

Í þriðja lagi vil ég spyrja ráðherrann hvort hann telji að við þá endurskoðun komi til greina að tengja atvinnuleysisbætur, í það minnsta fyrstu vikur atvinnuleysis eða fyrstu mánuði atvinnuleysis, við fyrri atvinnutekjur manna eins og víða þekkist.

Sem sagt í fyrsta lagi: Hvort ég hafi ekki skilið hæstv. félmrh. rétt að hann ætli að beita sér fyrir verulegri hækkun á atvinnuleysisbótum.

Í öðru lagi: Hvenær endurskoðunarinnar væri að vænta inn í þingið.

Og í þriðja lagi: Hvort ráðherrann telji koma til greina að tengja atvinnuleysisbætur, a.m.k. fyrstu vikur eða mánuði atvinnuleysis, við fyrri atvinnutekjur manna til að auðvelda þeim aðlögun að nýjum aðstæðum.

Væri ég þakklátur ef ráðherrann gæti veitt svör við þessum spurningum um leið og ég þakka honum fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu í dag.