Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 16:38:03 (4038)

2004-02-10 16:38:03# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom að mörgu í ræðu sinni og ég efa að ég komi svörum við í þessu stutta andsvari mínu við þeim spurningum sem hann bar fram. Hann bar hér fram nokkrar spurningar og mig langar að svara einhverjum af þeim.

Hann talar um þær lágu bætur sem atvinnulausir búa við og ég dreg ekkert úr því að þær eru lágar, 76 eða 78 þús. kr. á mánuði. Við erum sammála um að það eru of lágar bætur. Félmrh. hefur gefið út að hann vilji endurskoða atvinnuleysisbótakerfið með aðilum vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingunni. Ég hef trú á því að innan tíðar muni það samráð sem menn ætla að hafa þar skila einhverjum árangri. Félmrh. hefur lýst því yfir að hann vilji hækka atvinnuleysisbæturnar, enda er ekki vanþörf á.

Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti hér réttilega á eru um 5.500 manns atvinnulausir í landinu og þeir eru ekki ofsælir af þeim 76 eða 78 þús. kr. sem þeir búa við í hverjum mánuði.

Ég segi líka að þeir sem þiggja félagsaðstoð hjá sveitarfélögum í landinu eru ekki ofsælir af 70 þús. kr. á mánuði. Við getum verið sammála um það.

Það er verið að vinna að því að sporna gegn langtímaatvinnuleysi ungs fólks. Hæstv. félmrh. hefur beitt sér fyrir því og það er verið að byrja á Suðurnesjum, þar sem mjög mikið atvinnuleysi er, að skoða hvaða aðgerða er þörf til að bregðast við til þess að sporna gegn atvinnuleysi unga fólksins. Það er mjög mikilvægt að ráðast í það.

Svo segi ég það hér almennt, og við hv. þm. Ögmundur Jónasson getum verið sammála um það, að það aukna fé sem við settum í tryggingamál og velferðarmál mun koma sér vel, líka fyrir þá sem minna mega sín og eru fátækir í þjóðfélaginu. Og það að hækka framlög til heilbrigðis- og tryggingakerfisins um 10% á milli ára er veglegt framlag þó alltaf megi gera betur.