Vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 17:00:44 (4043)

2004-02-10 17:00:44# 130. lþ. 61.9 fundur 116. mál: #A vestnorrænt samstarf og íslensk nærsvæðastefna# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu sem ég kýs að kalla svo. Hér er um endurflutta tillögu að ræða sem líklega hefur verið flutt tvisvar til þrisvar sinnum á síðasta kjörtímabili, fékk þá reyndar í einhver skipti a.m.k. ágætisundirtektir og um hana urðu nokkrar umræður en náði því miður ekki fram að ganga eða varð ekki útrædd. Efni tillögunnar er enn í fullu gildi og ef eitthvað er má segja að sem betur fer hafi áhugi aftur glæðst á vestnorrænu og Norður-Atlantshafssamstarfi og sér þess víða stað, bæði í norrænu samstarfi, heimskautasamstarfi og eins þeim vísi að samstarfi sem hefur verið að byggjast upp á allra síðustu árum milli eyþjóða og strandsvæða við norðanvert Atlantshaf og ég mun koma betur inn á á eftir. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tillögur um eflingu vestnorræns samstarfs og mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Áætlun um aðgerðir í þessu skyni miði m.a. að eftirfarandi:

1. Að efla vestnorrænt og fjölþjóðlegt samstarf við norðan- og norðvestanvert Atlantshaf með frumkvæði af Íslands hálfu sem landfræðilegum, sögulegum og menningarlegum tengipunkti slíks samstarfs. Mótuð verði í þessu skyni íslensk nærsvæðastefna.

2. Að fylgja eftir uppbyggingu vestnorrænnar samvinnu sl. tvo áratugi með markvissum aðgerðum og auknum fjárframlögum, m.a. á sviði menningar- og menntamála, atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála og samgöngu- og ferðamála.``

Ég skýt því inn, frú forseti, að á borðum þingmanna liggja einnig tvær nýjar þáltill. sem fluttar eru af þingmönnum, fulltrúum Íslands í Vestnorræna ráðinu. Þær lúta annars vegar að auknu samstarfi Vestur-Norðurlanda á sviði sjálfbærrar nýtingar fiskstofna og hins vegar aukinnar samvinnu í heilbrigðismálum. Ég tel það sjálfboðið að bæði þessi svið eigi þarna fullt erindi, enda inn á það komið samanber samstarf á sviði atvinnu- og byggðamála, umhverfis- og náttúruverndarmála sem sérstaklega er nefnt í tillögu minni.

,,3. Að efla tengsl við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu í huga.

4. Að stuðla að rannsóknum á og ritun sögu Norðvestur-Atlantshafssvæðisins þar sem m.a. verði lögð áhersla á eftirfarandi:

a. landnám Íslendinga á Grænlandi og sögu búsetu norrænna manna þar,

b. sérstök tengsl Íslands og Færeyja, menningarlegan skyldleika, samstarf á sviði atvinnumála og samstöðu og skyldleika þjóðanna almennt,

c. norræna arfleifð á skosku eyjunum og á Írlandi, Bretlandi og vesturströnd Evrópu,

d. landnám norrænna manna á austurströnd Norður-Ameríku,

e. söguleg tengsl Íslands og Vestur-Noregs,

f. sögu siglinga, landafunda, byggðar og búsetu almennt við strendur norðan- og norðvestanverðs Atlantshafs.

5. Að fylgja eftir kynningu á vestnorrænni sögu og framlagi Íslands á sviði landafunda og landnáms í Vesturheimi í kjölfar 1000 ára afmælis Vínlandsfundar, siglingar Íslendings og annarra atburða í tilefni af landafundaafmælinu.``

Þessi töluliður ber það kannski nokkuð með sér, frú forseti, að það eru nokkur ár síðan tillagan var fyrst flutt, þ.e. í lok þessa afmælisárs ef ég man rétt. Þessir atburðir eru þó engu að síður enn ferskir í minni manna og full ástæða til að fylgja þeim eftir. Minna hefur reyndar orðið úr því en til stóð því uppi voru fögur fyrirheit um að fylgja þeim aðgerðum eftir með ýmsum hætti. Ísland fékk gríðarlega kynningu í Vesturheimi í tengslum við þessa atburði og því hefði vel mátt við halda af meiri metnaði, t.d. sem lið í almennri landkynningu og sókn fyrir hönd ferðaþjónustunnar o.s.frv.

,,6. Að rækta tengsl Íslands við Íslendingabyggðir í Kanada og Bandaríkjunum.``

Um þetta má segja að nokkuð hafi verið að gert, fyrst og fremst með opnun sendiskrifstofu og sendiráðs í Winnipeg annars vegar og Ottawa í Kanada hins vegar. Það er enginn vafi á því að stóraukin stjórnmálatengsl Íslands og Kanada hafa verið jákvæð í þessu tilliti.

,,7. Að efla stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði samgöngu- og ferðamála á þessu svæði.``

Ástæða er til að leggja sérstaka áherslu á þennan þátt og ég kem e.t.v. aðeins betur inn á hann síðar, eftir því sem tíminn leyfir, í tengslum við tillögur sérstaks starfshóps á vegum Norðurlandaráðs sem nýlega hefur skilað áliti um aðgerðir til að styrkja vestnorræna samvinnu. Þar er einmitt sérstaklega komið inn á samgöngumálin og vestnorrænt samstarf og reyndar er því líka gert hátt undir höfði í formennskuáætlun Íslendinga sem fer með formennsku í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.

,,8. Að móta stefnu um fjárveitingar til framangreindra verkefna til fjögurra ára í senn sem lögð verði fyrir Alþingi og endurskoðuð með reglulegu millibili.``

Eins og heyra má af þessum lestri, frú forseti, er hér um allviðamikla áætlun að ræða sem væri fólgin í þessari nálgun að Íslendingar móti sér stefnu um samskiptin við næstu nágranna sína og reyni að stuðla að því fyrir sitt leyti að svæðissamvinna með vestnorrænu löndin sem ákveðinn kjarna en einnig eyþjóðir og strandríki við norðanvert og einkum norðvestanvert Atlantshafið verði miðpunktur slíkrar svæðasamvinnuhugsunar. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því í mínum huga að í slíkt er gríðarmikið að sækja. Sem betur fer má vel halda því fram að þessi heimshluti okkar njóti nú vaxandi athygli á nýjan leik, t.d. í norrænu samstarfi. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að fyrstu árin eftir breytingarnar miklu í austanverðri Evrópu þegar múrinn féll og Eystrasaltsríkin öðluðust sjálfstæði og Norðurlönd lögðu mikið upp úr því að byggja upp samvinnu við þau og efla við þau tengsl sem eðlilegt og rétt og skylt var, var mikil athygli á nágrönnum Norðurlandanna í austri og suðaustri. Það má kannski segja að 10. og síðasti áratugur síðustu aldar hafi verið áratugur Eystrasaltsríkjanna og samvinnu af hálfu Norðurlanda þegar horft var mjög mikið í austur. Reyndar einnig í norður samanber t.d. stofnun heimskautaráðsins en þannig var um nokkurt árabil beinlínis sjálft skipulag Norðurlandaráðs aðlagað að því að vinna með grannríkjunum. Þá voru einkum höfð í huga grannríkin í austri, þ.e. Eystrasaltsríkin, Norðvestur-Rússland, Pólland og Kalíningrad. Nú eru málin kannski komin í meira jafnvægi auk þess sem þessi lönd öll, nema Norðaustur-Rússland og Kalíningrad, eru nú að gerast aðilar að Evrópusambandinu og samstarf við þau að komast undir önnur formerki. Þá er ánægjulegt til þess að vita og geta staðfest að það er aukinn áhugi á nýjan leik á norrænu samstarfi á vestnorrænu löndunum og að efla svæðisbundið samstarf þar og horfa til nágranna þessara landa í suðri og austri og vestri.

Til marks um það t.d. er tillöguflutningur á vettvangi Norðurlandaráðs og starfshópur sem þar starfaði skilaði fyrir nokkrum mánuðum norrænu samstarfsráðherrunum skýrslu um Vestur-Norðurlönd og tengsl þeirra við hið norræna samstarf. Um er að ræða prýðilega unnið plagg þar sem staðan er kortlögð og komið með allmargar tillögur til úrbóta. Ég vil alveg sérstaklega nefna að lagt var til í 2. tölul. tillagna starfshópsins að gerð yrði úttekt á samgöngumálum, bæði flug- og sjósamgöngum milli landanna á Vestur-Norðurlöndunum og tengsla þeirra við löndin umhverfis. Uppleggið var að fenginn yrði óháður, faglegur eða sérfróður aðili til að framkvæma yfirgripsmikla samgöngu- og innviðaúttekt bæði fyrir flug- og sjóumferð. Það má kannski lesa þetta upp á frummálinu, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Derimot foreslår arbeidsgruppen, at mulighetene undersøkes for at der på uavhengig faglig grunnlag gjennomføres en samlet, overordnet trafikk- og infrastrukturanalyse for både fly- og skipstrafikken mellom landene i Vest-Norden og med lande utenfor Vest-Norden.``

Þarna er sem sagt um yfirgripsmikla úttekt á samgöngu- og innviðamálum að ræða og ánægjulegt að í formennskuáætlun Íslendinga er gert sérstaklega ráð fyrir því að ráðast í þessa úttekt. Ég veit ekki betur en í norrænu fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár sé gert ráð fyrir fjármunum til að takast á við þetta. Þar eru í húfi geysilega mikilvægur málaflokkur því að því verður ekki neitað að óhentugar samgöngur, sérstaklega flugsamgöngur milli vestnorrænu landanna, dýrar og krókóttar leiðir, standa mjög fyrir þrifum öllum samskiptum í þessum efnum. Það nægir einfaldlega fyrir menn að upplifa hversu kostnaðarsamt og erfitt það getur iðulega verið að ferðast t.d. milli höfuðborga Íslands og Grænlands til að vita allt um þetta. Þá liggur leiðin oftar en ekki um Kaupmannahöfn með millilendingu í Syðri-Straumsfirði á Grænlandi og þaðan áfram með minni flugvélum til höfuðstöðvar Grænlands, Nuuk.

Hin leiðin sem fær er er að fara um austurströnd Grænlands og þá þarf gjarnan að millilenda á tveimur stöðum á leiðinni, þ.e. í Kulusuk og Syðri-Straumsfirði eða Kangerlussuaq sem svo heitir upp á grænlensku. Fargjaldið getur kostað á bilinu 150--220 þús. kr. Við njótum að vísu mun betri samgangna milli Íslands og Færeyja. Þær eru í raun orðnar ágætlega greiðar með reglubundnum áætlunum eða áætlunarflugi bæði íslenska og færeyska flugfélagsins og ekki hafa nýju jarðgöngin í Færeyjum milli Vogeyjar og Straumeyjar spillt fyrir, því að nú er hægt að komast beina leið á bíl frá flugvellinum og inn til Þórshafnar. En það stendur mönnum stórlega fyrir þrifum að ekki skuli vera tenging milli höfuðstaðanna þriggja. Það hlýtur að vera keppikefli að koma slíku á, en til þess þarf að athuga ýmislegt í sambandi við uppbyggingu mannvirkja, bæði flugbrauta og fleiri mannvirkja. Eitt sem iðulega hefur borið á góma í því sambandi er hvort Keflavíkurflugvöllur geti þjónað einhvers konar tengistöðvahlutverki fyrir flugumferðina til og frá Grænlandi. Margt bendir til þess að það gæti orðið hagkvæmur kostur fyrir báða aðila og æskilegt væri að fá af því góða kortlagningu í úttekt af þessu tagi.

Með tillögu þessari, virðulegi forseti, var dreift á borð þingmanna fskj. með tillögum starfshóps samstarfsráðherranna um vestnorrænt samstarf þar sem er á ferðinni mjög greinargóð kortlagning á þjóðunum eða svæðunum sem í hlut eiga við norðanvert Atlantshafið. Ég vænti þess að þingmenn geti fundið þetta í skjalabunkum sínum sem þeir hafa örugglega góðar reiður á. Hér er sem sagt um að ræða bækling sem Byggðastofnun Norðurlanda, Nordregio, vann fyrir starfshópinn. Þar er farið yfir öll þessi lönd allt í kringum norðanvert Atlantshafið og Norður-Íshafið. Þegar þetta er skoðað út frá eyríkjunum, strandsvæðunum og héruðunum sem í hlut eiga eru þetta miklu líkari aðilar í fólksfjölda, stærð og aðstæðum en menn skyldu ætla. Grænland er með 56 þúsund íbúa, Ísland með 390 þúsund, Færeyjar með 46 þúsund, á Svalbarða búa um 2.500 manns, í Murmansk-héraðinu, Murmansk oblast, býr um 1 milljón, í Arkhangelsk-héraði og Nenet oblast búa 1,5 millj. manna, á Hjaltlandseyjum búa 22.400 íbúar, á Orkneyjum tæp 20 þúsund, á Suðureyjum 26 þúsund. Ef Skotland er tekið með sem eining í þessu, þá búa þar um 5 millj., á Norður-Írlandi 1,5 millj., á eyjunni Mön 76 þús., á Írlandi tæpar 4 millj., í Nunavut-héraði í Norðaustur-Kanada 26 þús., í Nunavik tæp 10 þús. og á Nýfundnalandi og Labrador um 0,5 milljónir. Þessi héruð eiga sem sagt mjög margt sameiginlegt landfræðilega og hvað atvinnulíf snertir, eru tiltölulega sambærileg að stærð og eiga mikla sameiginlega hagsmuni af því að efla sína samvinnu. Út á það gengur tillagan einkum og sér í lagi, að Ísland reyni fyrir sitt leyti að stuðla að slíku og draga að nokkru leyti vagninn í þeim efnum sem sjálfstætt ríki af meðalstærð í hópnum inni á miðju svæðinu.

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.