Siglingavernd

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004, kl. 16:09:48 (4096)

2004-02-11 16:09:48# 130. lþ. 62.6 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir viðbrögð hv. þingmanna við þessu frv. sem ég hef mælt hér fyrir. Vegna þess að hér komu allmargar fyrirspurnir til mín tel ég nauðsynlegt að fara yfir þau atriði og gera grein fyrir þeim eins og kostur er en vísa hins vegar, eins og eðlilegt er, til umfjöllunar hv. samgn. sem að sjálfsögðu mun fara vandlega yfir málið í nefndinni.

Fyrst vil ég vekja athygli á því sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir nefndi í sinni ræðu, að það var haldinn fundur nú í vikunni á vegum Samtaka atvinnulífsins þar sem fjallað var ítarlega um þetta frv. Þar var af hálfu atvinnulífsins verið að meta stöðuna. Þar voru framsögur fluttar sem greindu viðfangsefnið mjög vel, og eins og kom fram hjá hv. þm. var rík áhersla lögð á það af hálfu atvinnulífsins, eins og er og hefur verið gert af minni hálfu og þeirra sem unnið hafa að þessu máli á vegum ráðuneytisins, að allra leiða verði leitað til þess að halda öllum kostnaði í hófi. Það er afar mikilvægt. Hins vegar snýr málið þannig við okkur að við þurfum að uppfylla þær kröfur sem alþjóðasamþykktir setja okkur og undan því verður ekki vikist.

Aðeins vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um innheimtu á gjöldum samkvæmt frv., hvort um væri að ræða heimildir eða skyldur til innheimtunnar, þá vil ég segja það og svara þar með mörgum öðrum hv. þm. að skv. 9. gr. er heimilt að innheimta gjöld vegna kostnaðar sem til fellur, eins og fram kemur í 9. gr., og það má ekki ganga lengra en svo að innheimta fyrir þeim kostnaði sem um ræðir. Þarna er því annars vegar verið að heimila höfnum, í þessu tilviki Siglingastofnun og höfnum, að innheimta þessi gjöld en setja þessar skorður alveg skýrar. Það er auðvitað afar mikilvægt að það sé og þess vegna gott að fá fram þessa athugasemd frá þingmanninum.

Hvað varðaði það sem hv. þm. nefndi að fyrst og fremst væri verið að tryggja öryggi vegna útflutnings til annarra ríkja fremur en að verið væri að tryggja hagsmuni okkar Íslendinga gagnvart hryðjuverkum, þá er auðvitað verið að fara þarna leiðir til þess að gera hvort tveggja. Það er mikið vandaverk en stýrihópurinn sem vann að undirbúningi málsins reyndi að leggja upp greiningu á viðfangsefninu með þeim hætti að leggja til útfærslu á framkvæmdinni á grundvelli þessara alþjóðlegu reglna, eins og fram kemur mjög skýrt í áliti stýrihópsins, og fara þær leiðir sem tryggja eins og kostur er hvort tveggja og þá þannig að það sé öruggt að þau skip sem eru í förum til og frá landi með innflutning og svo aftur útflutning verði ekki fyrir truflunum eða töfum þó að þau lesti og losi hér, en tryggi jafnframt að aðkoman hingað geti ekki leitt til þess að ógn stafi af þeim flutningum og þeim förum sem hingað koma vegna ónógs eftirlits. Þetta er út af fyrir sig mjög flókið ferli en forsendan og tilgangurinn er sá bæði að tryggja okkur og tryggja það að skipin geti siglt.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vakti athygli á því að e.t.v. væri verið að ofgera í umræðu um vörn gagnvart hryðjuverkum og óeðlilega mikill vopnaviðbúnaður. Hv. þm. orðaði það eitthvað á þá leið. Ég held að við Íslendingar leggjum þær línur yfirleitt að fara mjög varlega í þessum málum og ég held að það megi treysta því að þeir sem með þau fara, eins og ríkislögreglustjóri, muni gæta hófs við að leggja í kostnað vegna öryggisbúnaðar svo sem eins og vopna. En engu að síður, á okkur hvíla skyldur um þetta og undan þeim verður ekki hægt að víkjast.

[16:15]

Nokkrir hv. þingmenn, þar á meðal hv. þm. Jón Bjarnason, veltu fyrir sér undanþágumöguleikum eða frestunum á framkvæmd. Það er búið að fara vandlega yfir það. Staðan er nokkuð skýr hvað það varðar að við eigum ekki kost á öðru en að fara eftir þessum reglum. Það hefur verið skýrt í áliti stýrihópsins. Einnig var nefnt hvort við ættum þess kost að bíða þess að reglur Evrópusambandsins litu dagsins ljós. Ég held að um það sé ekki að ræða. Þær reglur eru nánast að verða tilbúnar. Við höfum þær undir höndum eins og þær eru í dag. Þær munu taka gildi 1. júlí eins og þessar reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Þess er ekki að vænta að þær reglur verði mildari en þær sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur sett nú þegar. Ég held því að við eigum að halda okkar striki hvað þetta varðar og undan því verði ekki vikist.

Hv. þm. Jón Bjarnason velti fyrir sér hvort aðrar reglur giltu um útflutningshafnir. Sömu reglur munu gilda um allar hafnir sem óska eftir þeirri heimild sem hér um ræðir, til innflutnings, hafnarverndar og útflutnings en hins vegar er ljóst að það verður að sníða kröfurnar að umsvifum og aðstæðum á hverjum stað. Um það er vandlega fjallað í vinnu stýrihópsins.

Hv. þm. Birkir Jónsson spurði hvort verið væri að vinna að samræmdum aðgerðum, sem er mjög mikilvægt atriði. Það er hluti þeirrar vinnu sem stýrihópurinn og Siglingastofnun hafa verið að vinna að, að tryggja samræmdar kröfur miðað við aðstæður á hverjum stað. Að því verki er vissulega unnið. Eins spurði hv. þm. hvort innan stýrihópsins hefði verið fyrirvari af hálfu fulltrúa Hafnasambandsins. Svo var ekki. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum og áliti einróma. Það hafa því ekki borist til ráðuneytisins neinir fyrirvarar hvað það varðar.

Heildarkostnaður samfélagsins er nokkuð óljós að öðru leyti en því sem kemur fram í mati fjmrn. á þeim kostnaði sem ríkisstofnanirnar áætla að leggja út. Það liggur ljóst fyrir hvað það verður. Hafnirnar hafa reynt að meta kostnaðinn og eru enn að því. Hér voru nefndar tölur um kostnað, t.d. Reykjavíkurhafnar, en ég tel að þar hafi verið ofsögum sagt. Það er talið að kostnaður Reykjavíkurhafnar sé á bilinu 150--200 millj. kr. að teknu tilliti til afskrifta. Þá er verið að tala um allan kostnaðinn, einnig þann kostnað sem skipafélögin verða fyrir á hafnasvæðunum. Í því sambandi þarf að gæta sín nokkuð. Hins vegar er ljóst að vegna þess að það er enn verið að vinna að útfærslu liggur ekki ljóst fyrir hver þessi kostnaður verður endanlega. Löggjöfin skapar hins vegar þennan ramma sem við verðum að gera ráð fyrir að vinna eftir. Útfærslan verður síðan í ljósi þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við höfum undirgengist og ekki verður undan vikist.

Hv. þm. Halldór Blöndal fór yfir nokkur atriði. Ég tek undir með honum þar sem hann sagði að höfuðskylda framkvæmdarvaldsins væri að tryggja hóflegan kostnað af slíkum aðgerðum. Það er alveg ljóst. Eins og ég hef getið um áður verður að því unnið og er mikil ástæða til að hv. samgn. fari vandlega í það. Þannig verður það að vera bæði gagnvart einstökum aðilum og vegna tolls og lögreglu og Siglingastofnunar sem koma að þessu. Það þarf að fara mjög vandlega ofan í öll áform með þeim stofnunum og sömuleiðis fulltrúum hafnanna.

Kostnaður Siglingastofnunar, eins og kemur fram í frv., vegna siglingaverndarinnar er áætlaður um 8 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir því að hann geti verið borinn uppi af gjöldum sem innheimt eru vegna þessarar þjónustu. Það er ljóst að þar er fyrst og fremst um það að ræða að halda úti regluverkinu, þ.e. gögnum og þeim stöðlum sem lúta að þessu eftirliti. Ekki er um það að ræða að það sé daglegt eða stöðugt eftirlit af hálfu starfsmanna Siglingastofnunar gagnvart höfnunum. Hafnirnar setja verndaráætlun sína sem er staðfest og síðan ber hver höfn ábyrgð á þeirri framkvæmd. Ég geri því ekki ráð fyrir að kalla þurfi til þess sérstaka starfsmenn, t.d. á Akureyri. Komi hins vegar í ljós að svo sé þá þarf að taka afstöðu til þess hvort ekki sé hagkvæmara að hafa starfsmanninn á staðnum fremur en að hann kosti höfnina eða stofnunina mikla fjármuni vegna ferðalaga. Á þessu þarf að taka og þetta þarf að meta þegar þar að kemur. Ég vil ekki segja neitt á þessu stigi en miðað við að fyrir landið allt sé kostnaðurinn ekki meiri geri ég ekki ráð fyrir því að efni séu til að ráða sérstaka starfsmenn á einstakar hafnir.

Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. að stýrihópnum var ætlað að kanna áhrif innleiðingarinnar og þar á meðal kostnað. Það hefur verið gert að því marki sem hægt er á þessu stigi. Það verður hins vegar ekki til fullnustu gert fyrr en búið er að gera verndaráætlanir fyrir einstakar hafnir og að því verður unnið.

Varðandi það hvort ríkið taki þátt í þessum kostnaði þá er, eins og hér er lagt upp með, gert ráð fyrir því að kostnaðurinn verði innheimtur. Fyrr en seinna leggst sá kostnaður á flutningana. Hins vegar er ljóst en það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort ríkisframlög verði aukin vegna þessara verkefna.

Það eru 30--40 hafnir sem munu hafa tilkynnt siglingavernd við landið. Þannig munu nokkuð margar hafnir taka á þessu og við því verður að bregðast.

Ég held að mér gefist ekki tími til þess að svara fleiri spurningum. Tíminn er búinn en ég mun svara nánar í síðari ræðum ef tilefni gefst til að fara frekar í það mál sem hér er til umræðu.