Rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:25:07 (4126)

2004-02-12 11:25:07# 130. lþ. 63.5 fundur 354. mál: #A rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mun svara þeim spurningum sem að mér var beint á sínum tíma og gera það samkvæmt þingsköpum.

Ég vil í upphafi mótmæla því að hér ríki stefnuleysi í málefnum háskólanna, hvort sem um er að ræða kennslu eða rannsóknir. Hér ríkir skýr stefna og má eiginlega segja að við stæðum ekki frammi fyrir, eins og ég gat um áðan við fyrri fyrirspurn hv. þm., þessum jákvæðu viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir í dag varðandi rannsóknir og kennslu ef háskólastigið og háskólasamfélagið hefði ekki bókstaflega þanist út á síðustu árum. Eru menn á móti því? Auðvitað koma upp ný viðfangsefni á hverjum tíma. En þetta er jákvæð þróun.

Varðandi spurningu hv. þm. um hvað líði gerð rannsóknarsamnings við Háskólann í Reykjavík vil ég geta þess að gert var ráð fyrir að hann fengi 50 millj. kr. til rannsókna árið 2004. Í fjárlögum segir að skólinn eigi að fá 11 millj. kr. en mismunurinn verður greiddur af fjárveitingu á sérstökum safnlið og hefur háskólanum þegar verið tilkynnt um það.

Um þessar mundir er verið að ganga frá kennslusamningum við alla háskóla. Samningar við Háskóla Íslands hafa þegar verið undirritaðir, bæði kennslu- og rannsóknarsamningar. Í framhaldi af því hugar ráðuneytið að undirbúningi samninga við aðra háskóla og í þeim samningum eru sérstök ákvæði um rannsóknir, ég vil undirstrika það ef það hefur farið fram hjá fólki. Háskólinn í Reykjavík hefur þegar fengið slík drög að samningi frá ráðuneytinu.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hvað telur ráðherra að rannsóknarsamningurinn þurfi að hljóða upp á háa fjárhæð á ári til að Háskólinn í Reykjavík geti sinnt rannsóknarskyldu sinni?``

Það er ákvörðun háskólans sjálfs hversu mikla áherslu hann leggur á rannsóknir í starfsemi sinni. Eru þær áherslur væntanlega ákveðnar í samræmi við áherslur á fræðasviði skólans, tegundir rannsóknarstarfsemi, alþjóðlegt samstarf og árangur skólans við að sækja um styrki í innlenda og erlenda samkeppnissjóði.

Háskólinn í Reykjavík er ungur skóli. Það mun taka tíma að byggja upp heildstætt rannsóknarumhverfi í skólanum. Ráðuneytið hefur frá árinu 2000 lagt Háskólanum í Reykjavík til fé til uppbyggingar rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna. Þær fjárveitingar hafa farið stighækkandi á síðustu árum. Ég vek athygli hv. þm. á því að þær fjárveitingar hafa farið stighækkandi á undanförnum árum. Jafnframt hefur skólinn heimild til töku skólagjalda og er gert ráð fyrir því að hluti af þeim fari til rannsóknarstarfsemi við skólann.