Rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:28:12 (4127)

2004-02-12 11:28:12# 130. lþ. 63.5 fundur 354. mál: #A rannsóknarsamningur við Háskólann í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Mörður Árnason:

Forseti. Enginn efast um góðan hug hins nýja hæstv. menntmrh. í þessum efnum. En ég hygg að ráðherra verði að skoða sig betur um í ráðuneytinu. Ekki hefur enn sést sú skýra stefna sem hún telur að ríki í málefnum háskólanna.

Hv. fyrirspyrjandi spurði, og á ekki að taka því sem einhverjum dónaskap, hvað hæstv. menntmrh. gerði með skiptinguna í rannsóknarháskóla og kennsluháskóla, tvískiptingu sem við eigum kannski ekki orð fyrir í okkar máli en eru á milli universitas annars vegar og aðallega kennsluháskóla á öðru stigi hins vegar.

Menntmrh. sagði að Háskóli Íslands væri, með leyfi forseta, ,,svona undirstaðan`` í háskólastiginu. Hvers konar undirstaða? Og hvaða skyldur fylgja og hvaða réttindi hefur hann í þessum efnum? Það þarf að liggja fyrir stefna þannig að samstarf háskólanna felist í samkeppni en ekki í rifrildi eins og stefnuleysi hæstvirtra menntamálaráðherra hefur leitt til nú um stundir.