Viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:07:27 (4146)

2004-02-12 12:07:27# 130. lþ. 63.9 fundur 494. mál: #A viðurkenning starfsnáms á Norðurlöndum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Spurt er:

,,Hvernig gengur samstarf norrænu menntamálaráðherranna um Norðurlönd sem samfellt menntasvæði, sérstaklega hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu starfstengds náms?``

Samstarf menntamálaráðherranna um Norðurlönd sem samfellt menntasvæði gengur vel. Samstarf Norðurlandanna á þessu sviði hvílir á traustum grunni sem jafnt og þétt er reynt að færa til nútímalegra horfs. Hér á eftir verða nefnd þrjú atriði sem sérstaklega lúta að efni fyrirspurnarinnar og eru nú til úrvinnslu á vegum norrænu menntamálaráðherranna.

Í fyrsta lagi er unnið að því í starfshópum á vegum landanna að kortleggja hvernig staðið er að viðurkenningu starfsmenntunar og starfsréttinda milli Norðurlandanna. Er ætlunin að starfshóparnir athugi hvort sérstakar hindranir séu í vegi þeirra sem vilja fá starfsréttindi viðurkennd í einhverju hinna Norðurlandanna. Mál þetta hefur bein tengsl við þá áherslu sem verið hefur innan Evrópusambandsins á rétt manna til að fá starfsmenntun sína viðurkennda við flutning milli landa. Það má sjá í tilskipunum Evrópusambandsins og svokallaðri Kaupmannahafnaryfirlýsingu, sem hv. þm. gat um áðan, um samstarf á sviði starfsmenntunar frá nóvember 2002. Mál þessi hafa lengi verið í tiltölulega greiðum farvegi á Norðurlöndum. Vinnan núna miðar að því að Norðurlöndin verði áfram til fyrirmyndar þegar kemur að gagnkvæmri viðurkenningu starfsmenntunar.

Niðurstaða úttektar á gagnkvæmri viðurkenningu starfsmenntunar milli Norðurlanda mun lögð fyrir fund menntamálaráðherra landanna seinni hluta mars næstkomandi.

Í öðru lagi er unnið að endurskoðun á samningi um gagnkvæman rétt Norðurlandabúa til að stunda nám á framhaldsskólastigi annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi samningur hefur nýst þeim vel sem sótt hafa sér starfsmenntun sem ekki er í boði í heimalandinu. Samningur þessa efnis var upphaflega gerður árið 1993 og var ákveðið að yfirfara hann í ljósi reynslunnar og með hliðsjón af löggjöf Evrópusambandsins.

Sérstaklega hefur verið hugað að því hvort auka megi flæði nemenda á framhaldsskólastigi milli Norðurlandanna á grundvelli samningsins. Ný útgáfa samningsins verður lögð fram til samþykktar á fundi menntamálaráðherra Norðurlanda á Íslandi í júní næstkomandi.

Í þriðja lagi er unnið að því að uppfæra samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu á prófgráðum milli Norðurlandanna sem leysa skal af hólmi eldra samkomulag um sama efni, svokallað Sigtuna-samkomulag frá árinu 1975. Samkomulagið á að hafa að leiðarljósi að norrænir nemendur sem flytjast milli Norðurlanda til náms á háskólastigi skuli fá fyrra nám sitt í heimalandinu metið að fullu til áframhaldandi náms. Fyrsta tillaga að endurskoðuðu samkomulagi er nú til skoðunar í löndunum og er stefnt að því að ganga frá nýrri gerð samkomulagsins á fundi menntamálaráðherra Norðurlandanna í mars næstkomandi.

Ég vil að auki geta þess að í ráðuneytinu erum við að skoða hvernig styrkja megi enn frekar starfs- og tæknitengt nám. Auðvitað hafa verið stigin mörg skref í þá veru sem eru okkur sýnileg, skref sem hafa leitt til þess að tækninám hefur verið styrkt. Við breyttum lögum um Tækniskólann, honum var breytt í Tækniháskóla. Sá skóli er allur að eflast og styrkjast. Það er þáttur í því að reyna að efla tækninám. Það er líka spurning, eins og hv. þm. gat um áðan, hvernig við getum eflt verkfræðinámið enn frekar og fjölgað verkfræðingum. Það er menntun sem við þurfum líka á að halda.

Ég vil geta þess að þótt menn tali oft á tíðum í neikvæðum tón um starfs- og verkmenntun þá er í heimabæ mínum starfræktur Iðnskólinn í Hafnarfirði. Í kjölfar þess að skólinn fluttist í nýtt húsnæði, sem mikill styr stóð um, var farið af stað í einkaframkvæmd við það húsnæði. Skólinn hefur blómstrað eftir að hann kom í nýtt húsnæði. Það geta þeir sem þar vinna borið vitni um. Núna er það mikil eftirspurn eftir plássi þar að skólinn annar ekki þeirri eftirspurn. Það eru líka jákvæð teikn á lofti.