Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:37:06 (4158)

2004-02-12 12:37:06# 130. lþ. 63.11 fundur 145. mál: #A viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ekki held ég að svör hæstv. ráðherra við þeirri fyrirspurn sem hér var lögð fram komi til með að minnka áhyggjur heimamanna frá því sem var. Mér finnst standa upp úr í svari hæstv. ráðherra að í raun sé þetta ákaflega stutt komið og mun styttra en maður hélt. Málið væri tilbúið til útboðs, en hvað þýðir það? Hvað á að bjóða út ef það eru núna einungis um 150 millj. kr. til framkvæmda?

Ef verktíma væri flýtt til ársins 2006 er það talsvert annað en heimamönnum hefur verið lofað og ég held að það hljóti að vera að fólk á Selfossi fari að velta fyrir sér hvað sé að marka af því sem sagt hefur verið í þessu máli og hvers sé að vænta, vegna þess að aftur og aftur er verið að koma með svör og aftur og aftur er verið að koma með einhver loforð en svo virðist það vera svikið jafnóðum. Ég held að það hljóti að þurfa að fara að koma endanleg niðurstaða í málið.