Viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:40:31 (4161)

2004-02-12 12:40:31# 130. lþ. 63.11 fundur 145. mál: #A viðbygging við Heilbrigðisstofnunina á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:40]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur ekkert vantað upp á það að þingmenn áður Suðurlandskjördæmis, nú Suðurk., hafi staðið þétt við hliðina á núv. hæstv. heilbrrh. eða fyrrv. hæstv. heilbrrh. Það vantaði ekki. Það er algerlega útilokað að enn og aftur --- þessi fyrirspurn er búin að liggja hér síðan á haustdögum, það átti að svara henni innan hálfs mánaðar, að mig minnir, samkvæmt þingsköpum, --- það er algerlega útilokað fyrir okkur að taka því hér einu sinni enn úr ræðustól frá hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill málinu vel, að svörin séu ekki til. Því var lofað hér og heitið af hans hálfu fyrir tveimur árum að það yrði farið í þessar framkvæmdir strax um áramótin 2002/2003. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson veit jafn vel og ég að tillögur um hvernig útdeila skuli því fjármagni sem til heilbrrn. kemur koma að stærstum hluta þaðan. Og þetta er forgangsverkefni því að peningarnir eru litlir til þess að leysa þau verkefni sem blasa við heilbrrn., en þegar við erum með eldra fólk, stóran hóp á mælikvarða þessa svæðis, í húsnæði sem búið er að dæma nánast ónýtt ár eftir ár eftir ár, þá er engin afsökun og það er okkur til háborinnar minnkunar að hafa ekki tekið á þessu fyrr.

Það er hægt að fara yfir 36 atriða lista síðan í desember og veittur var frestur til 1. febrúar til að koma með framkvæmdaáætlun um hvernig bæta ætti úr. Nú hefur framkvæmdastjóri sjúkrahússins fengið mánaðarfrest í viðbót vegna þess að við blasir 90 millj. kr. niðurskurður hjá þeirri stofnun og ekki króna til til að fara í neins konar endurbætur. Það verður að fara að taka á þessu máli og það verður að gera það nú þegar