Heilsugæslan á Þingeyri

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:44:58 (4163)

2004-02-12 12:44:58# 130. lþ. 63.12 fundur 399. mál: #A heilsugæslan á Þingeyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:44]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. er fullkunnugt um að mikil óánægja ríkir á Þingeyri með þá litlu þjónustu sem veitt er á heilsugæslunni þar. En ráðherra var send ályktun frá fundi á Þingeyri um málið sem hljóðaði eitthvað á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Opinn fundur með íbúum Þingeyrar skorar á heilbrigðisráðherra að ráða bót á því ófremdarástandi sem nú ríkir á Þingeyri í heilsugæslumálum með því að ráða í fyrirliggjandi stöður læknis og hjúkrunarfræðings. Sú þjónusta sem nú er veitt er að læknir hefur móttöku í heilsugæslunni á fimmtudögum í þrjár klukkustundir í senn, sem er algerlega óviðunandi.``

Þess ber að geta að í kjölfar ályktunar íbúanna á Þingeyri var læknisþjónustan aukin um heilar þrjár klukkustundir og það ber að þakka hæstv. heilbrrh. að hafa aukið þjónustuna um heilar þrjár klukkustundir. En betur má ef duga skal og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að Dýrfirðingar fái betri heilbrigðisþjónustu, t.d. með því að ráðinn verði hjúkrunarfræðingur til starfa á heilsugæslustöðinni á Þingeyri?

Húsnæði heilsugæslunnar er glæsilegt og það er í raun furðulegt að ekki sé ráðið fagfólk til starfa þar. Þess ber að geta að gert er ráð fyrir stöðum læknis og hjúkrunarfræðings en einhverra hluta vegna virðist ekki vera ráðið í stöðurnar og við verðum að fá skýringar á því hvers vegna það er ekki gert.

Því miður er ástandið á Þingeyri ekki einsdæmi. Það eru t.d. 4--5 stöður heimilislækna á Ísafirði en einungis eru starfandi þar þrír heimilislæknar. Ég hef ekki séð þessar stöður auglýstar í neinum blöðum og á Sjúkrahúsinu á Ísafirði eru tvær stöður en þar er einungis ein staða mönnuð. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér vantar einnig lækna á Hólmavík og Patreksfjörð.

Herra forseti. Er um einhverja stefnumörkun að ræða hjá Framsfl. að ráða ekki í lausar stöður á minni stöðum á landsbyggðinni? Við þurfum að fá svör við því.