Heilsugæslan á Þingeyri

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 12:52:53 (4165)

2004-02-12 12:52:53# 130. lþ. 63.12 fundur 399. mál: #A heilsugæslan á Þingeyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[12:52]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur gert hér grein fyrir stöðu mála og því að ráðuneytið ásamt Heilbrigðisstofnuninni í Ísafjarðarbæ leggur sig fram um að leysa úr þessu máli, þeim vanda sem skapast vegna þess að læknirinn er í námsleyfi. Um tímabundið ástand er því að ræða hvað það varðar, og hitt að erfiðlega hefur gengið að fá fastráðinn hjúkrunarfræðing á staðnum eins og hugur manna stendur til og á að vera.

Þetta auðvitað vekur athygli á því ástandi sem almennt er uppi í þjóðfélaginu. Það er verulegur skortur á hjúkrunarfræðingum hér á landi og reyndar nokkur skortur á læknum líka. Því eiga heilbrigðis- og menntamálayfirvöld að kappkosta að fá sem flesta til náms í þessum greinum, sérstaklega hjúkrunarfræði, til að mæta þeim skorti sem er fyrir hendi á þessu sviði. Úrlausn á þessu máli liggur að stærstum hluta til í atbeina menntamálayfirvalda hvað það varðar.