Ferðamál fatlaðra

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:59:39 (4187)

2004-02-12 13:59:39# 130. lþ. 63.19 fundur 265. mál: #A ferðamál fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi:

,,Hefur ráðherra beitt sér fyrir því við Ferðamálaráð að farið verði að tillögum og ábendingum sem fram komu í skýrslu starfshóps um menningar- og tómstundastarf fatlaðra frá 1999 um að fram fari samræmd skráning á möguleikum fatlaðra til ferðalaga, gisti- og áningarstöðum, samgöngutækjum, afþreyingarmöguleikum o.fl. og niðurstaðan sett í aðgengilegan upplýsingabanka fyrir fatlaða?``

Svar mitt er svohljóðandi:

Þegar skýrsla starfshóps um menningar- og tómstundastarf fatlaðra kom út á sínum tíma beindi samgrn. því til Ferðamálaráðs að fjalla um þann hluta skýrslunnar er sneri að ferðamálum.

Hvað varðar samræmda skráningu á möguleikum fatlaðra til ferðalaga þróuðust mál þannig að verkefni fóru af stað á vegum Sjálfsbjargar, sem fékk til þess fjárhagslegan stuðning hins opinbera. Verkefnið fólst í að safna upplýsingum um allt land um aðgengi hreyfihamlaðra að gististöðum, veitingahúsum, söfnum, sundlaugum, bensínstöðvum og koma upplýsingum í aðgengilegt form. Samgrn. veitti Sjálfsbjörgu síðan styrk á sl. vori til að koma þessum upplýsingum í gagnabanka á aðgengilegu formi. Nú eru þær komnar á vef Sjálfsbjargar og flokkaðar þar eftir landsvæðum. Upplýsingarnar eru bæði á íslensku og ensku og er þar listi yfir 144 aðgengilega staði á landinu. Safnað hefur verið frekari upplýsingum en skort hefur fjármagn til að koma öllum upplýsingum sem til eru í þennan gagnagrunn og er vonandi að úr því rætist.

Samgrn. hefur lýst því yfir við Sjálfsbjörgu að það sé reiðubúið til frekara samstarfs um þetta brýna verkefni. Viðræður hafa átt sér stað milli Ferðamálaráðs og Sjálfsbjargar um að á næstu missirum verði þessi gagnabanki tengdur miðlægum gagnabanka Ferðamálaráðs fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Í öðru lagi spyr hv. þm.:

,,Ef svo er ekki, hvernig og hvenær hyggst ráðherra bregðast við þessum tillögum og ábendingum starfshópsins?

Eins og fram kemur í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar hefur hið opinbera veitt fjárstuðning til að safna nauðsynlegum upplýsingum og síðan veitti samgrn. fjármagn til að koma upplýsingunum í aðgengilegt form.

Samgrn. lýsti einnig í vor yfir áhuga á frekara samstarfi við Sjálfsbjörgu um verkefnið. Þá er nú unnið að því að koma þessum upplýsingum um aðgengi fatlaðra í miðlægan upplýsingagrunn Ferðamálaráðs, eins og fyrr segir, fyrir þá ferðamenn sem hér fara um, bæði innlenda og erlenda.

Af þessu tilefni er ástæða til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þann áhuga sem hún sýnir málefninu. Það er alveg ljóst að mikill fjöldi ferðamanna, bæði íslenskra og erlendra, fer hér um landið og þess vegna skiptir mjög miklu máli að til séu glöggar upplýsingar um aðgengi, og ekki síður að þeir sem sinna ferðaþjónustunni geri sér góða grein fyrir því að þetta er mikilvægur viðskiptahópur sem þarf á tiltekinni þjónustu að halda, þarf tilteknar aðstæður og gerir tilteknar kröfur. Þess vegna finnst mér alveg sjálfsagt að huga alveg sérstaklega að aðgengi fatlaðra á ferðamannastöðum og þeirri þjónustu sem þar er veitt og tel að Ferðamálaráð eigi með upplýsingagjöf og atbeina ýmsum að leggja sitt af mörkum til þess að bæta úr hér á Íslandi fyrir fatlaða ferðalanga.