Rafræn þjónusta

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:20:06 (4193)

2004-02-12 14:20:06# 130. lþ. 63.26 fundur 490. mál: #A rafræn þjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Ágæti forseti. Ég beini hér fyrirspurn til viðskrh. um opinbera rafræna þjónustu. Tilefnið er að fram kom á dögunum að Ísland er aftarlega í samanburði þjóðanna varðandi opinbera rafræna þjónustu. Þetta kemur m.a. fram í mati fyrirtækisins Cap Gemini Ernst & Young. Fyrirtækið fjallar árlega um stöðu þessara mála meðal landa í Evrópusambandinu og EFTA, og samkvæmt nýrri skýrslu frá þessu ágæta fyrirtæki er Ísland í 14. sæti af 18 ríkjum. Svíar eru fremstir, síðan koma Danir og þá Írar. Íslendingar eru einungis í 14. sæti og því verulegir eftirbátar fremstu Evrópuþjóða í opinberri rafrænni þjónustu við borgara landsins.

Rafræn þjónusta býður upp á áður óþekkta möguleika á því að minnka skrifræðið, bæta margfalt þjónustu hins opinbera og ekki síst að færa aðgengið að þjónustunni nær fólkinu. Rafræn þjónusta og rafrænir gagnagrunnar eru lykilatriði í þessu sambandi. Því er áríðandi að efla verulega rafræna þjónustu þar sem hún eykur aðgengi fólksins að stjórnkerfinu og sparar verulegt fé í rekstri sé vel á haldið. Skrifræðið minnkar og tímasparnaður alls almennings sem þarf að nýta sér opinbera þjónustu er mikill. Því er ávinningur af góðri rafrænni þjónustu talsverður og mælanlegur fyrir samfélagið og hið opinbera sparar dýrmætt fé og tíma um leið og stjórnkerfið er gert skilvirkara og fært nær fólkinu sem það starfar fyrir.

Sem dæmi um afar framsækið og spennandi verkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu og góða fyrirmynd að uppbyggingu í rafrænni þjónustu hvers konar má nefna verkefnið Sunnan 3. Að því standa sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus og fyrir skömmu undirrituðu þau samning við Byggðastofnun um verkefnið ,,Sunnan 3 -- samstarf um rafrænt samfélag``. Markmið Sunnan 3 verkefnisins er að efla búsetuskilyrði á starfssvæði sveitarfélaganna með markvissri hagnýtingu upplýsingatækni og fjarskipta, enn fremur að skapa þekkingarbrunn sem hægt er að nýta við yfirfærslu rafrænna stjórnsýsluhátta til annarra byggðarlaga á Íslandi. Þar fara þessi þrjú sveitarfélög fremst í flokki.

Verkefnið Sunnan 3 hlaut hæstu einkunn í áðurnefndri samkeppni um rafrænt samfélag. Í niðurstöðu matsnefndar um verkefnið kemur m.a. fram að meginstyrkur sé víðtækar áætlanir um beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til að ná fram skilvirkari stjórnsýslu og hagræðingu í rekstri sveitarfélaganna þriggja.

Þetta er til fyrirmyndar, ágæti forseti, og eftirbreytni og mætti vera ráðamönnum hvati til að gefa í og efla rafræna opinbera stjórnsýslu á Íslandi.

Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

,,Hefur ráðherra áform um að efla opinbera rafræna þjónustu?``