Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:44:31 (4201)

2004-02-12 14:44:31# 130. lþ. 63.22 fundur 519. mál: #A söfnunarkassar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að lesa þær fyrirspurnir sem ég hef formlega lagt fyrir hæstv. dómsmrh. en þær eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til að stemma stigu við aðgengi að söfnunarkössum?

2. Hvað líður samningu reglugerðar um framkvæmd laga um söfnunarkassa?

Árum saman hefur verið reynt að knýja fram breytingar á löggjöf um söfnunarkassa, öðru nafni spilakassa og enn öðru nafni spilavítisvélar. Við skulum ekki gleyma því að í spilavítum erlendis, í Las Vegas, Mónakó og víðar eru spilakassar, vítisvélar af þessu tagi, uppistaðan í þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Árið 1994 voru sett lög um þessar vélar, en þar segir í 4. gr., með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Dómsmálaráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar Íslenskra söfnunarkassa, nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir söfnunarkassa, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu framlaga, fjárhæð vinninga og aldur þeirra sem nota mega kassana til að leggja fram framlög en hann skal þó eigi vera lægri en 16 ár. Með sama hætti getur ráðherra sett í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um greiðslu kostnaðar vegna eftirlits og endurskoðunar.``

Í lögum um Happdrætti Háskóla Íslands á sama tíma segir m.a., með leyfi forseta.

,,Dómsmálaráðherra setur með reglugerð m.a. nánari ákvæði um staðsetningu, auðkenningu, fjölda og tegundir happdrættisvéla, eftirlit með þeim, notkun mynta og seðla við greiðslu fyrir þátttöku, fjárhæð vinninga og aldur þeirra sem mega nota vélarnar. Lágmarksaldur þátttakenda skal þó vera 16 ár.``

Þetta er sem sagt staðan sem við erum í núna. Það er liðinn áratugur frá því lögin voru sett án þess að þau hafi verið framkvæmd að því leyti að lögboðin reglugerð hafi verið sett. Þetta er stórlega ámælisvert og vísa ég þar í tvennt.

Í fyrsta lagi í þann langa tíma sem liðinn er og það er ekki svo að málið hafi legið í þagnargildi. Margoft hef ég og aðrir vakið máls á þessu á Alþingi og kvartað yfir seinagangi við þessa vinnu.

Í öðru lagi, og það er náttúrlega það atriði sem máli skiptir, er það engan veginn saklaust að hafa ekki sett mjög skýrar reglur um spilakassana í ljósi þess hve miklum skaða þeir valda og að hugsanlega væri hægt að draga úr þeim skaða með skýrum þrengjandi reglum.

Ég get vitnað í ályktanir sem komið hafa frá Samtökum áhugamanna gegn spilafíkn þar sem óskað var eftir reglugerð af þessu tagi, en þeir hafa einvörðungu mætt grafarþögn bæði af hálfu aðstandenda kassanna og einnig af hálfu ráðuneytisins.

Nú óska ég svara frá hæstv. ráðherra.