Rafræn stjórnsýsla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:57:11 (4206)

2004-02-12 14:57:11# 130. lþ. 63.23 fundur 554. mál: #A rafræn stjórnsýsla# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að ákveðinni stefnumótunarvinnu innan dómsmrn. á þessu sviði almennt séð og nýlega var ákveðið að semja við fyrirtækið KPMG um að vinna með ráðuneytinu að mótun upplýsingatæknistefnu ráðuneytisins. Verður í upphafi gerð úttekt á stöðu upplýsingatæknimála hjá einstökum stofnunum og ráðuneytinu í heild og hún greind með tilliti til þeirra þarfa sem er hjá stofnunum ráðuneytisins og er stefnt að því að þessari úttekt ljúki í vor. Þá verður stefna ráðuneytisins og áætlun í upplýsingatæknimálum mótuð en eitt af markmiðum greiningarinnar er að skoða möguleika á samþættingu upplýsingakerfa með þeim hætti að gögn geti færst með rafrænum hætti innan stjórnkerfisins eftir því sem við á.

Þá vil ég einnig láta þess getið að við höfum nýlega gengið frá samningi. Hinn 3. febrúar sl. var undirritaður samningur við Fasteignamat ríkisins þar sem tenging er á milli sýslumannsembætta og Landskrár fasteigna, en í Landskrá fasteigna eru allar fasteignir á landinu og eru þær komnar í miðlægan gagnagrunn. Í þeim grunni er hægt að þinglýsa kvöðum eða öðrum gögnum á eignina óháð staðsetningu eignarinnar og tilgangur þessa verkefnis er að koma í veg fyrir tvíverknað við skráningu og auka gæði þeirra upplýsinga sem skráð eru og miðla úr Landskrá fasteigna.

Síðan hafa komið fram hugmyndir um það hvort tengja eigi einnig inn í þetta kerfi þinglýsingar varðandi bifreiðir, skip, flugvélar og annað lausafé, auk fasteignanna. Það er mál sem við erum með til athugunar. Ég hef einnig orðið var við það að fjöldi einkaaðila hefur áhuga á samstarfi við dómsmrn. um ýmsa þætti þessa máls og verður að sjálfsögðu tekin afstaða til þess áhuga og tekið mið af því sem fram kemur í samskiptum ráðuneytisins við einkaaðila, því ég hef það markmið í þessu efni í þessu ráðuneyti eins og annars staðar þar sem ég hef komið að þessum málum að það sé hlutverk hins opinbera að skilgreina þarfir sínar, setja fram ákveðnar kröfur og kanna síðan hvort ekki séu á markaðnum fyrirtæki sem vilja taka að sér að fullnægja þessum kröfum og sinna þeim verkefnum sem talið er eðlilegt að unnið sé að og framkvæmd séu.

Ég vona svo sannarlega að það takist á vettvangi dómsmrn. þó að sjálfsögðu verði að hafa í huga að þar er um upplýsingar og verkefni að ræða sem viss og meiri trúnaður þarf að ríkja um en kannski um ýmsa aðra þætti í starfsemi á vegum ríkisins. En ég vil að öll þessi mál séu skoðuð með því hugarfari að ráðuneytið skilgreini þarfir sínar og stofnana sinna og síðan sé kannað hvort ekki séu á markaðnum fyrirtæki sem eru reiðubúin til að taka að sér að veita slíka þjónustu. En það verður að tryggja að þau fyrirtæki séu reiðubúin til að veita þá þjónustu af því öryggi sem nauðsynlegt er á þeim sviðum sem ráðuneytið starfar.