Rafræn stjórnsýsla

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:01:58 (4208)

2004-02-12 15:01:58# 130. lþ. 63.23 fundur 554. mál: #A rafræn stjórnsýsla# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og innlegg hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég get í sjálfu sér alveg deilt áhuga hv. þingmanns á því að það sé spennandi og ögrandi verkefni að skoða þetta rafræna fyrirkomulag hvað varðar kosningar. Útgangspunktur fyrirspurnar minnar var þó fyrst og fremst hvað varðar aðgengi landsmanna að stjórnsýslunni og ekki síður hvað varðar aðila í viðskiptum vegna þess að þinglýsingar, veðbókarvottorð og annað því um líkt gegnir þar svo snöru hlutverki.

Auðvelt aðgengi með rafrænum hætti að því ætti þá að létta álögur á fyrirtæki, það ætti að spara einstaklingum og fyrirtækjum mikinn tíma og fyrirhöfn.

Ég fagna sérstaklega þessu markmiði sem hæstv. ráðherra lýsir hér, og kemur í sjálfu sér ekki á óvart af því orði sem hann hefur getið sér í að nýta sér rafræna stjórnsýslu. E.t.v. er ósanngjarnt að fylgja spurningunni eftir. Hæstv. ráðherra nefndi það að stefnt væri að allsherjarúttekt með vorinu á þörfum ráðuneytisins og ég spyr hvort ráðherra treysti sér til að svara því hvenær hann sjái fyrir sér að búið verði að hrinda í framkvæmd því sem margir telja augljóst að þurfi og sé hægt að gera með tiltölulega skjótum hætti, svo sem eins og með útgáfu vottorða.

Ég ítreka að ég deili markmiðum með hæstv. ráðherra og hv. þingmanni og vonast til þess að við í framtíðinni, mjög náinni framtíð, munum sjá enn frekari skref stigin í átt að rafrænni stjórnsýslu.