Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:24:19 (4215)

2004-02-12 15:24:19# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er vel gert hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að leggja fram þessa fyrirspurn fyrir hæstv. iðn.- og viðskrh. Í raun lít ég svo á að hv. þm. sé milligöngumaður um að hæstv. iðn.- og viðskrh., Valgerður Sverrisdóttir, flytji fyrirspurn til landbrh. um hvað þessi sölumál eigi að þýða í lambakjötsútflutningnum. Auðvitað er skondið að sjá annan ráðherra í ríkisstjórninni, flokkssystur hæstv. ráðherra, tala um málaflokk hans með þeim hætti sem raun ber vitni.

Um efnið sjálft, þ.e. útflutning á lambakjöti, er það sem betur fer þannig að fyrst nú, á allra síðustu árum, 1--3 árum, er að nást umtalsverður árangur í að fá talsvert hærra verð en heimsmarkaðsverð fyrir íslenskt lambakjöt, fyrst og fremst ferskt og unnið sem gæðavöru. Það er mjög ánægjulegt og hefur mjög lengi verið draumur manna. Það væri fásinna að gefast upp nú eins og málin standa. Það væri mikið áfall fyrir sauðfjárræktina ef allur útflutningur legðist af og málflutningur hæstv. iðn.- og viðskrh., byggðamálaráðherra, er út í loftið svo talað sé mannamál.