Útflutningur á lambakjöti

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 15:31:26 (4220)

2004-02-12 15:31:26# 130. lþ. 63.25 fundur 555. mál: #A útflutningur á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég held að brýnast sé að Samf. fari á námskeið í landbúnaðarmálum, ekki síst eftir ummæli formannsins, Össurar Skarphéðinssonar, og þá sundurlausu umræðu sem hér er höfð uppi á mörgum sviðum, eins og t.d. að Samf. geti ekki viðurkennt það sem félagshyggjuflokkur að bændur geti komið sér saman um fyrirkomulag. Hvers vegna geta þeir ekki komið sér saman um fyrirkomulag? Er Samf. slíkur frjálshyggjuflokkur að hann fordæmi allt sem er félagsleg skylda? Bændurnir hafa komið sér saman um þetta af ákveðnum ástæðum. (BjörgvS: Reyna að vera málefnalegur.) Það er af ákveðnum ástæðum. Það er af þeim ástæðum að þeir telja þetta hagsmuni sína. Kannski er það til þess að verð falli ekki og til þess að allir taki þátt í þeirri leit sem stendur núna yfir að mörkuðum erlendis. Kannski eru þetta ástæðurnar fyrir því að hin félagslega heild bændanna geri það.

Svo þýðir náttúrlega ekkert lengur að koma í þennan ræðustól og halda því fram að allir sauðfjárbændur séu að drepast. Þetta er misríkur hópur, fólk með mismiklar tekjur, sumt af þessu fólki hefur það gott annað býr við léleg lífskjör. Sumir þessara manna hafa sauðfé sem aukabúgrein og lifa á öðru með. (RG: Það er það sem ...) Hv. þm. Björgvin Sigurðsson hélt því hér fram og talar með þeirri lítilsvirðingu um þessa stétt að allir séu fátækir og tekjulausir. Það er ekkert þannig. (BjörgvS: Mikill ...) Þetta er auðvitað (Gripið fram í.) missterkur hópur og misefnaður og hefur það misgott. (Gripið fram í: Sumir eru ...) Kannski menn sem hafa það mjög gott af því þeir hafa mörg önnur verkefni. Við skulum tala af virðingu um stöðu þessa fólks.

Góðu fréttirnar eru þær að sala á lambakjöti jókst á síðasta ári um 1,1% og ég get tekið undir það að auðvitað þurfa sláturleyfishafarnir sem eru með fyrirtæki bændanna í höndum að gera þeim grein fyrir hvað þeir fá á erlendum mörkuðum. Kannski þarf að knýja þá til þess að það verð verði upplýst.

Þetta er verkefni bændanna. Það eru engin átök um þetta í ríkisstjórninni. Ég held að samstaða sé um að halda þessu verkefni áfram með þessum hætti. Þetta eru ekki miklir peningar. Hér hafa hv. þm. ekki gagnrýnt það, sem ég þakka fyrir. Það eru ekki miklir peningar kannski miðað við það sem stórfyrirtækin eru núna að leggja í markaðssetningu sína, hvort sem það er Landssíminn eða KB-banki, 200--400 millj. Hér erum við að tala um mjög lítinn pening, hæstv. forseti.