Loðnuveiðar

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:27:42 (4241)

2004-02-16 15:27:42# 130. lþ. 64.1 fundur 324#B loðnuveiðar# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegur forseti. Hafi ég skilið hæstv. sjútvrh. rétt þá stefnir sem sagt í að heildarloðnukvótinn á þessari vertíð verði alla vega tæp 800 þús. tonn.

Undanfarin tíu ár, ef ég man rétt, hafa árlegar loðnuveiðar hér við land verið einhvers staðar á bilinu 700 þús. til 1,5 millj. tonn á ári. Þarna er verið að taka gríðarlegan lífmassa út úr vistkerfinu við Ísland, neðan af vistkerfinu við Ísland, lítinn fisk sem inniheldur mikla orku. Ég tel fyllilega tímabært að fram fari alvarleg umræða í þjóðfélaginu um hvort við séum ekki að gera mikil mistök, skjóta okkur í lappirnar, með því að veiða svo mikið af loðnu á hverju ári.

Sú loðna sem hrygnir og drepst við Ísland hverfur ekki úr vistkerfinu. Hún verður að fæðu fyrir botndýrategundir, aðrar fisktegundir. Þannig er reginmisskilningur að ætla að loðnan sé horfin þótt hún deyi.