Útboð á fjarskiptaþjónustu

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:34:47 (4246)

2004-02-16 15:34:47# 130. lþ. 64.1 fundur 325#B útboð á fjarskiptaþjónustu# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og kemur fram í því svari sem hv. þm. og fyrirspyrjandi vitnaði til hvílir ekki skylda á hinu opinbera að bjóða út fjarskiptaþjónustu sína. Hins vegar hefur það mál verið til athugunar að undanförnu, bæði í fjmrn. og á vegum Ríkiskaupa, og ég tel að það sé einungis spurning um tíma hvenær út í einhvers konar útboð verður farið á þessu sviði þó að sjálfsögðu ekki sé vitað enn þá í hve miklum mæli það getur gerst. Auðvitað blasir það við eftir því sem tækni og annað þróast á þessu sviði að ríkisfyrirtæki eins og aðrir geta hagnast á því að fara í útboð.

Hins vegar má ekki gleyma því að á ríkisfyrirtækinu Landssímanum hvíla ýmsar kvaðir og skuldbindingar, sem stundum er kvartað um í þessum sal að séu ekki nægilega miklar eins og gert hefur verið fyrr í dag, sem ekki hvíla á samkeppnisaðilanum. Það þarf líka að gæta þess að réttilega sé fram gengið hvað öll slík mál varðar áður en farið er í útboð. Þau þurfa þá að vera afskaplega vel skilgreind og ná utan um tiltekin vel afmörkuð atriði áður en út í þau er farið. En eins og ég segi, ég hafna því að sjálfsögðu ekki og geri ráð fyrir því að það sé framtíðin á þessu sviði.