Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:47:35 (4250)

2004-02-16 15:47:35# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Eins og fram kemur í svari hæstv. fjmrh. við umræddri fyrirspurn sem hér er gerð að umtalsefni eru ákvæði skattalaga ákaflega skýr. Ég get tekið undir það sem þar er sagt. Það er alveg klárt hvernig reglurnar eru og það er allra aðila að fara eftir þeim.

Það kemur fram að erlent fyrirtæki með starfsemi hér á landi situr, og á að sitja, við sama borð og innlend fyrirtæki hvað starfsemi og skattalög varðar. Þannig liggur það í augum uppi að þetta ítalska verktakafyrirtæki er staðgreiðsluskylt eins og aðrir launagreiðendur hér á landi, ellegar hefðu þeir ekki setið við sama borð, íslenskir og erlendir aðilar, við að bjóða í þetta verk.

Hins vegar er það svo, herra forseti, að ef fyrirtæki skilar ekki staðgreiðslu sinni er það auðvitað verkefni skattyfirvalda að ganga eftir henni, og það er í raun og veru undarlegt hvað það hefur verið látið dankast lengi að grípa inn í þessi mál.

Það er einmitt í dag, virðulegi forseti, sem öll fyrirtæki eru að skila staðgreiðslu fyrir janúarmánuð og þetta fyrirtæki á auðvitað að standa skil á sínum gögnum eins og hvert annað fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Það hefur líka komið fram að þetta fyrirtæki hafði óskað eftir fundi með skattyfirvöldum út af einhverjum álitamálum hvað þetta varðar og mér fannst hæstv. fjmrh. vera að gefa í skyn að öðru máli gegndi um tryggingagjaldið. Það má í sjálfu sér taka undir það hvernig með það á að fara. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvað sögðu útboðsgögn vegna tryggingagjaldsins? Er það eitthvert álitamál þar? Við vitum hvernig tryggingagjaldið er samsett. Ef til vill eru einhver álitamál þar, en hvað sögðu útboðsgögnin? Ef innlendur aðili hefði fengið þetta stóra og mikla verk og notað innlent vinnuafl eingöngu við það hefði hann að sjálfsögðu þurft að skila sínu tryggingagjaldi.

Virðulegi forseti. Það er skattyfirvalda að grípa inn í þetta mál á þessu stigi.