Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:49:51 (4251)

2004-02-16 15:49:51# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er hlutverk og skylda íslenskra skattyfirvalda að hafa eftirlit með því hvort íslensk eða erlend fyrirtæki fara að íslenskum skattalögum eða -reglum. Löggjafarvaldið hefur sett þá ábyrgð á herðar ríkisskattstjóra að hafa eftirlit með því.

Hvað varðar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hafa forsvarsmenn Impregilo lýst því yfir að farið verði í einu og öllu að íslenskum lögum hvað varðar skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun. Við verðum að taka orð þeirra trúanleg en jafnframt hljótum við að treysta þeim eftirlitsstofnunum er málið varðar, að þær framfylgi lögum.

Ég skil mætavel áhyggjur forsvarsmanna þeirra sveitarfélaga er málið varðar og geri ekki lítið úr áhyggjum þeirra, enda hefur dráttur orðið á staðgreiðslu vegna þessara framkvæmda, það er staðreynd. Því legg ég mikla áherslu á að skattyfirvöld fylgist grannt með því að rétt sé staðið að málum hvað varðar skattgreiðslur starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun og að hlutir er lúta að skattskilum komist í viðunandi horf.

Ég get aftur á móti sagt það sem þingmaður Norðaust. að ég fagna uppbyggingu í virkjana- og stóriðjumálum á Austurlandi. Það var mikil barátta Austfirðinga og stjórnarflokkanna að koma þessari framkvæmd á og alveg ljóst að andstæðingar framkvæmdarinnar eru mátulega sáttir við niðurstöðuna í málinu. Við getum hins vegar sagt okkur það að í framkvæmd upp á 200 milljarða kr. ganga ekki allir hlutir snurðulaust fyrir sig. Það segir sig sjálft.

Því miður hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ekki verið hlynnt þeim framkvæmdum sem nú standa yfir á Austurlandi, framkvæmd sem mun skila þjóðarbúinu tugum milljarða króna á næstu árum, fjármagni sem við munum m.a. nýta til að styrkja og efla velferðarkerfi okkar. Til þess að halda uppi öflugu velferðarkerfi þörfnumst við öflugs atvinnulífs. Því miður er lítill skilningur á þeim sjónarmiðum innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.