Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:54:12 (4253)

2004-02-16 15:54:12# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Mér finnst það vera lágmarkskrafa við umræðurnar hér og þær sem eiga eftir að verða um þessi mál --- því að ég tel að þeim sé ekki lokið --- að þingmenn geti gert greinarmun á því hvort viðkomandi þingmaður hafi verið hlynntur eða mótfallinn virkjunarframkvæmdum sem slíkum þegar verið er að takast á um önnur mál sem snúa að þessum framkvæmdum. Og núna þegar við erum að fjalla um skattskyldur þeirra fyrirtækja sem eru við vinnu á virkjanasvæðinu, og þá sérstaklega ítalska fyrirtækisins Impregilo sem virðist ekki hafa skilað sköttum til ríkis, og alls ekki til sveitarfélagsins, tel ég að þar séu á ferðinni alveg aðskilin mál, óháð því hvort maður var hlynntur eða mótfallinn þeim miklu framkvæmdum sem þarna eru á ferðinni. Það verður að gera kröfu um að menn greini þarna á milli.

Ég vil vísa til þess að margir á Norður-Héraði, því sveitarfélagi sem ekki fær útsvarstekjur af þessum framkvæmdum, voru hlynntir framkvæmdunum, m.a. vegna þess að þeir töldu sig fá auknar tekjur inn í sveitarfélagið með skattlagningu á virkjunina sem slíka, sem sé á stíflu og rennslisgöng, og að þeir mundu fá auknar útsvarstekjur. Nú er þetta hvort tveggja úti í bili og því tel ég að þarna hafi sveitarfélagið verið blekkt og það sé eðlilegt að sveitarstjórnarmenn séu a.m.k. mjög svekktir um þessar mundir.

Hér er margt undir. Ég vil sérstaklega nefna starfsmannaleigurnar en það er erfitt að sannreyna launagreiðslur sem fram fara erlendis, í þessu tilfelli Portúgal. Það er erfitt að sjá hvaða launagreiðslur eru inntar af henndi og þar af leiðandi erfitt að skattleggja viðkomandi launþega. Gæti verið að þetta væri hluti af því sjónarspili sem þarna fer fram?