Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:56:30 (4254)

2004-02-16 15:56:30# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Samkvæmt íslenskum lögum er algjörlega skýrt að þeir sem starfa við byggingu Kárahnjúkavirkjunar eru skattskyldir hér á landi og þau fyrirtæki sem ráða starfsmenn, útlenda og íslenska, bera fulla ábyrgð á staðgreiðslu skatta fyrir starfsmenn sína. Er þá sama hvort um er að ræða fasta starfsmenn eða starfsmenn frá starfsmannaleigum. Um þetta þarf ekki að deila og það kom mjög skýrt fram í svari hæstv. fjmrh. í síðustu viku.

Ábyrgð fyrirtækja, í þessu tilfelli Impregilo, er alveg ljós. Hins vegar vakna spurningar um hvort hið opinbera ferli varðandi skráningar og eftirlit með skattgreiðslum slíkra aðila sé nægilega skilvirkt.

Það sem veldur nokkurri furðu er af hverju svo fáir af þeim erlendu starfsmönnum sem starfa við virkjunarframkvæmdirnar eru komnir til búsetu í landinu, þ.e. til lögheimilis annaðhvort í Fljótsdalshreppi eða Norður-Héraði. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér er þó nokkur og kannski stærsti hlutinn af þeim á svokallaðri utangarðsskrá, en á þeirri skrá eru útlendingar sem sótt hafa um dvalarleyfi en ekki hafa borist fullnægjandi gögn og tilheyrandi vottorð um þá.

Umrætt fyrirtæki hefur verið frekar svifaseint við að skila gögnum um starfsmannatryggingar og læknisvottorð og þess vegna hefur ekki tekist að ljúka umsóknum um dvalarleyfi. Í lögum um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um samráðsnefnd Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar. Spurning er hvort bæta þyrfti inn í samráðsnefndina aðila frá þjóðskrá og ríkisskattstjóra til að allt hið opinbera verkferli varðandi ráðningu og skattskyldu erlendra starfsmanna geti gengið sem best og skilvirkast fyrir sig og verið öllum ljós. Það skiptir þau sveitarfélög þar sem framkvæmdir standa hverju sinni, eins og nú er á Austurlandi, máli að það sé ljóst að útsvarsgreiðslur skili sér.