Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 15:58:57 (4255)

2004-02-16 15:58:57# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér ræðum við um skattskil vegna Kárahnjúkavirkjunar. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að skattgreiðslur voru hluti af því jákvæða sem við sáum við þessar framkvæmdir og þess vegna er afar brýnt að þær skili sér. Þess vegna er sérkennilegt orðaval hjá hæstv. ráðherra að telja skil útsvarsgreiðslna til sveitarfélaga vera í eðlilegum farvegi.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það eðlilegur farvegur að sveitarfélög þurfi að ráða sér lögfræðinga til að kanna hvað valdi því að útsvarsgreiðslur skili sér ekki til sveitarfélaganna? Þetta getur ekki flokkast undir eðlilegan farveg, herra forseti.

Því er brýnt að þetta mál fái farsæla lausn sem allra fyrst. Við erum mörg sem stóðum dyggilega á bak við þá framkvæmd sem á sér stað og erum orðin langþreytt á þeim ófriði sem þarna virðist stöðugt verða á vettvangi. Þess vegna er nauðsynlegt að allar opinberar stofnanir taki höndum saman og fari í þau verk sem þarf að vinna. Það er alveg ljóst að því miður hefur undirbúningur verið þar mjög af skornum skammti á ýmsum sviðum. Þetta er eitt birtingarformið. Og við ætlumst til þess af hæstv. fjmrh. að þessu máli verði kippt í lið hið allra snarasta. Eins og hæstv. ráðherra sagði verða engin undanbrögð liðin. Það er lykilatriði og ber að fagna því að það eigi ekki að leyfa nein undanbrögð í þessum greiðslum, svo mikilvægar sem þær eru.

Það er auðvitað ljóst að það brennur heitast á sveitarfélögunum fyrir austan sem eiga að fá þessar greiðslur. Þess vegna, herra forseti, ítreka ég fyrirspurn mína um það hvort hæstv. ráðherra hafi virkilega meint það að það væri eðlilegur farvegur hjá sveitarfélögum að þurfa að leita aðstoðar lögfræðinga við það að fá eðlilegar útsvarsgreiðslur.