Skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 16:07:48 (4259)

2004-02-16 16:07:48# 130. lþ. 64.94 fundur 331#B skattgreiðslur erlendra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra hér voru auðvitað óskaplegur útúrsnúningur. Það er dapurlegt, bæði fyrir hans hönd og annarra sem hér hafa talað, að menn skuli ekki geta haldið sig við efnislega umræðu um það mál sem hér um ræðir, þ.e. þá stórkostlegu meinbugi og þær brotalamir sem komið hafa í ljós í sambandi við skattskil og skattgreiðslur af umsvifunum tengdum byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Spurningarnar sem við lögðum fyrir hæstv. ráðherra voru auðvitað almenns eðlis, þá sérstaklega 5. tölul. Það er ekkert annað en útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að það sé í lagi að svara eins og hann gerir, í ljósi þess sem liggur fyrir og blasir við. Svör hans um að þarna séu engin sérstök vandamál á ferðinni eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Það þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Það er beinlínis barnalegt að halda því fram þegar allt liggur fyrir, þegar deilur um greiðslur tryggingagjalds og launatengdra gjalda eru á leið til dómstóla, þegar aðalverktakinn vefengir að honum sé skylt að annast um innheimtu og skil á staðgreiðslu af starfsmönnum sínum og mótmælir því algerlega að hann sé ábyrgur fyrir staðgreiðslu af launum þeirra sem starfa á vegum starfsmannaleigna og undirverktaka. Það er væntanlega jafnframt á leið til dómstóla.

Í þriðja lagi berast sveitarfélögunum ekki útsvör af upp undir 500 erlendum starfsmönnum sem ættu samkvæmt réttum reglum að vera búsettir í sveitarfélagi. Er þetta í lagi? Eru þetta engin vandamál? Svo koma hér framsóknarmenn og eru svona himinlifandi glaðir yfir ástandinu. Ja, litlu verður Vöggur feginn, vil ég segja, þegar þeir eiga í hlut, framsóknarmennirnir. Jafnvel svona lagað getur glatt þá, að vísu í skammdeginu.

Hæstv. ráðherra gerði réttast í því að fara upp úr skotgröfunum og svara heiðarlega. Auðvitað á hann að afturkalla svar sitt frá því á dögunum og gera Alþingi skilmerkilega grein fyrir þeim álitamálum og vandamálum sem þarna eru uppi og verið hafa til umfjöllunar í fjölmiðlum og víðar.