Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 16. febrúar 2004, kl. 17:35:19 (4273)

2004-02-16 17:35:19# 130. lþ. 64.4 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál, frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir þeirri skoðun sinni í upphafi að hann teldi að lítið tillit hefði verið tekið til athugasemda sem fram komu við framlagningu máls á liðnu vorþingi. Hins vegar tiltók þingmaðurinn m.a. eitt atriði sem varðar heimild til arðgreiðslu sem nú hefur verið horfið frá og ég tel að sé reyndar algjört grundvallaratriði málsins og svari kannski mörgum þeim spurningum sem hér hafa komið upp og ekki síst þeirri spurningu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi til mín í lok máls síns, þ.e. hvort ég óttist að við séum að leggja upp í vegferð sem ekki sjái fyrir endann á og gæti, ef ég skildi mál þingmannsins rétt, falið í sér gróðahyggju af einhverju tagi. En lögin gera ekki ráð fyrir að heimild sé til arðgreiðslu heldur einungis að tekin verði gjöld fyrir framlagða þjónustu sem greinin takmarkast þá við. Ég held að það svari raunverulega spurningunni og ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég vek athygli á að í 3. gr. gildandi laga er kveðið á um það að ef vatnsveita er í sameign tveggja eða fleiri sveitarfélaga þá ráða eigendurnir rekstrarforminu. Það er allt opið í þeim efnum. Hér erum við þá að færa til sama vegar lög um rekstrarform vatnsveitna sem eru í einkaeign eins sveitarfélags og eðlilegt er að þarna sé um samræmi að ræða.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr líka hvað valdi því að tímamörk framsals hafi verið felld út úr fyrra frv. Að mínu mati er einfaldlega ekki vænlegt að tímabinda samninga um rekstur. Eðlilegt er að í slíkum samningum sé kveðið á um uppsagnarákvæði. Hins vegar eiga ákvæði 4. gr. þessa frv. um innlausnarrétt að tryggja hagsmuni íbúanna.

Hæstv. forseti. Það er líka ástæða til að hnykkja á því að frv. sem hér er til umræðu er fyrst og fremst um dreifingu vatns. Um vatnsból gilda önnur lög, vatnalög nr. 15/1923.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr hvort sá er hér stendur telji að þetta frv. tryggi hag íbúa sveitarfélaganna þar sem kveðið er á um að fyrirtækið skuli vera í meirihlutaeign ríkis eða sveitarfélaga. Svarið við þeirri spurningu er já og vil ég leyfa mér að vitna til athugasemda við lagafrv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Mælt er fyrir um heimild sveitarstjórnar til að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt lögunum. Framsalið skal binda nánar tilgreindum skilyrðum og kvöðum. Jafnframt er í frumvarpinu mælt fyrir um skyldu sveitarstjórnar til að hafa eftirlit með því að vatnsveita veiti íbúum fullnægjandi þjónustu.``

Svo ég grípi inn í þessa greinargerð svolítið síðar, með leyfi hæstv. forseta, þá segir:

,,Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gjaldtaka vatnsveitna byggist á almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að ekki skuli ákveða í gjaldskrá hærra gjald en sem nemur meðalkostnaði af að veita þjónustuna, að teknu tilliti til fjármagnskostnaðar og fyrirhugaðs stofnkostnaðar vegna framkvæmda samkvæmt langtímaáætlun.``

Hæstv. forseti. Ég tel að þessar tvær málsgreinar sem ég hef hér vitnað til úr athugasemdum við lagafrv. svari í sjálfu sér spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar hvað þetta varðar.

Hv. þm. dregur í máli sínu sömuleiðis í efa eða setur fram þá skoðun sína að einstakar greinar þessa frv. kunni að stangast á við og vera í mótsögn við sveitarstjórnarlög. Ég tel svo alls ekki vera. Í 64. gr. sveitarstjórnarlaganna er, eins og hv. þm. kom hér inn á, fjallað um raunar umráðarétt en ekki eignarrétt sveitarfélaganna hvað þetta varðar. Það frv. sem við ræðum nú felur ekki í sér neina mótsögn hvað þetta varðar enda á það að vera tryggt samkvæmt frv. að eignir vatnsveitu verði ávallt nýttar til þess að inna af hendi lögboðna þjónustu við íbúa sveitarfélags og er rétt að hnykkja á því eins og kom fram í máli mínu áðan að vatnsveitur eru nú þegar í ýmsum sveitarfélögum í eigu annarra en viðkomandi sveitarfélags.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson lagði fram nokkrar spurningar til þess sem hér stendur og ég mun reyna að svara þeim. Það er þá fyrst spurningin sem varðar 1. gr. frv. um skilgreininguna á þéttbýli og dreifbýli. Þarna er ekki um neina efnislega breytingu að ræða frá því sem er í gildandi lögum. Þéttbýli samkvæmt skipulagsreglugerð er skilgreint þannig að það sé kjarni með fleiri en 50 íbúum og að ekki sé lengra en 200 metrar á milli húsa. Ég ítreka að þarna er ekki um neinar efnislegar breytingar frá gildandi lögum að ræða.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spyr líka hvort með frv. sé verið að opna á þann möguleika að vatnsveita sé rekin í formi hlutafélags. Því er til að svara að með þessu opnast sá möguleiki. Það liggur fyrir. Sá möguleiki opnast að sveitarfélag, eitt eða fleiri, eða félag ríkis og sveitarfélags eða sveitarfélaga, og/eða með aðkomu annarra aðila, taki að sér rekstur vatnsveitu en að sjálfsögðu samkvæmt þeim lögum sem þá gilda.

Hv. þm. spyr sömuleiðis með hverju sveitarstjórn eigi að fylgjast. Án þess að ég ætli að fara tæmandi orðum um það --- um slíkt þarf að kveða nánar á í reglugerð --- þá má nefna þætti eins og þann sem mér hefur hér orðið tíðrætt um, að samkvæmt þessu frv. verður ekki heimilt að taka gjöld fyrir afhendingu vatnsins umfram það sem kostnaður við rekstur veitunnar kveður á um. Það getur verið eitt hlutverk sveitarstjórnar að fylgjast með því, afhendingu vatnsins sömuleiðis og gæðum þess. Þannig má áfram telja. Skyldur sveitarfélagsins hafa síst minnkað verði frv. að lögum. Skyldur sveitarfélagsins eru eftir sem áður að afhenda íbúum sínum vatn. Ég er sammála því sem fram kemur í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að ég tel að það sé ein af grunnskyldum okkar að sjá til þess að íbúar landsins, sveitarfélaganna, hafi á hverjum tíma aðgang að neysluvatni enda er þar verið að uppfylla eina af grunnþörfum okkar.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi í máli mínu vikið að flestum þeim atriðum sem upp hafa komið við þessa umræðu. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði af hverju kæmi fram í frumvarpstexta grein þar sem kveðið er á um að ríki og sveitarfélög hafi þarna skyldum að gegna. Það er ekki síst vegna þess að þess eru dæmi að vatnsveitur sem reknar eru í dag, hvað þá heldur í framtíðinni, séu reknar af félagi eða félögum sem eru í sameign ríkis og sveitarfélaga. Þannig er þetta orðalag til komið.

Hæstv. forseti. Ég ítreka tillögu mína frá því að ég flutti málið og mælti fyrir því, að ég legg til að málinu verði, eftir þessa umræðu sem ég þakka fyrir, vísað til 2. umr. og umfjöllunar í félmn.