Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 14:22:16 (4293)

2004-02-17 14:22:16# 130. lþ. 65.4 fundur 156. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér var mælt fyrir og er til umræðu gerir ráð fyrir, eins og segir í textanum, að sveitarstjórnir skuli ,,leitast við að hlusta eftir skoðunum íbúa sveitarfélagsins og leita samráðs við þá um forgangsröðun verkefna í tengslum við gerð langtímaframkvæmda- og fjárhagsáætlunar`` o.s.frv.

Það sem ég er að velta fyrir mér er nákvæmlega það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vék að, hvort nauðsynlegt sé að festa þessa reglu í lög. Ég spyr: Er þetta ekki nákvæmlega það sem gert er fyrir hverjar kosningar, hvort sem er til sveitarstjórnar eða í landsmálunum? Eru þetta ekki verkefni sem kjörnum fulltrúum fólksins ber að sinna, þ.e. að hlýða á raddir íbúanna, hafa samráð við þá um þær framkvæmdir sem gerast innan sveitarfélaganna o.s.frv.? Og sveitarstjórnarmenn sem halda um stjórnartauma í einstökum sveitarfélögum sem færu á svig við það sem gert er ráð fyrir að hér sé lögfest --- það segir sig sjálft að þeir mundu líklega ekki ná endurkjöri ef þeir færu á svig við þær reglur sem lagt er til að festar verði hér í lög.

Ég bendi líka á að mér finnst athyglisvert að hér er gert ráð fyrir að settar séu reglur um það að menn geti komið að tillögum sem eru leiðbeinandi fyrir sveitarstjórnirnar en þær þurfi síðan alls ekkert að fara eftir þeim leiðbeiningum sem út úr þessum íbúaþingum koma. Og þá veltir maður fyrir sér: Hver er tilgangurinn umfram það sem nú er með því að festa þetta í lög? Ég tel, og ég vildi koma því að, að í krafti sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaganna beri hverju og einu sveitarfélagi að ákveða með hvaða hætti þau haga þessum málum en okkur beri ekki að festa slíkt í lög.