Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 17. febrúar 2004, kl. 15:57:58 (4315)

2004-02-17 15:57:58# 130. lþ. 65.8 fundur 207. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., 208. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Nei, það er auðvitað rétt hjá hv. 5. þm. Norðvest. að þessar línur eru ekki auðdregnar og kannski er ekki rétt að draga þær mjög skarpt. Það er rétt að menn geta verið í félagsstjórn sem við fyrstu sýn virðist vera á áhugagrunni og einungis til góða og gagns fyrir sitt umhverfi en lent í þeirri stöðu að geta átt erfitt sem þingmenn, t.d. í íþróttafélögum, við það að standa í ýmsum þeim fjárhagsmálum sem nú eru orðin alsiða einmitt í íþróttafélögum.

Ég á kannski fyrst og fremst við það að við byrjum á einum stað. Í greinargerðinni er t.d. minnt á það að í Danmörku tíðkast það að þingmenn sitji ekki í nefndum á vegum ríkisins til að vinna að undirbúningi löggjafar og þeir eru heldur ekki tilnefndir til setu í stjórnum eða ráðum hjá opinberum stofnunum eða opinberum fyrirtækjum sem hér eru til. Ýmis þau opinberu fyrirtæki sem enn eru óeinkavædd, annaðhvort beinlínis ríkis- eða sveitarfélagafyrirtæki eða þar sem þessir aðilar eru stórir hluthafar, eru meðal stærstu fyrirtækja þaðan sem við fáum oft erindi hingað inn á þingið með beinum eða óbeinum hætti. Ég tel t.d. að það sé óheppilegt að þingmenn sitji í stjórnum slíkra fyrirtækja þó að við skulum láta góðgerðarfélögin og íþróttafélögin enn um sinn í friði, enda fráleitt að ræna þau hinum góða starfskrafti sem þingmenn geta verið í slíkum stjórnum.