Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:42:10 (4331)

2004-02-18 13:42:10# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Mörður Árnason:

Forseti. Þetta er ótrúlegt að heyra. Hæstv. sjútvrh. fær kost á því hér að segja álit sitt á hugmyndum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að skipta á veiðigjaldinu og sjómannaafslættinum. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram báðar þessar hugmyndir. Hann fékk aðra samþykkta gegn minni hluta í þinginu vissulega. Hann á í basli með hina hugmyndina. Þeir Geir H. Haarde félagi hans, hæstv. ráðherra, eiga í basli með hina hugmyndina um sjómannaafslátt. En hvað gerir hann þegar hann færi tækifæri til þess að afgreiða þetta mál á snyrtilegan hátt í upphafi umræðu á Alþingi? Hann ræðir um hv. þm. Jóhann Ársælsson og um afstöðu Samfylkingarinnar í auðlindanefndinni. Það er hægt að upplýsa hæstv. ráðherra um það, fyrst hann hefur ekki enn þá komið því inn í höfuðið á sér, að fulltrúar Samfylkingarinnar í auðlindanefndinni skrifuðu undir það samkomulag alveg klárlega þannig að þeir teldu að fyrningarleiðin væri betri, alveg á sama hátt og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson skrifaði undir það ásamt Ragnari Árnasyni í hina áttina og sagði að það væri skýrt álit þeirra að hún kæmi ekki til greina.

Við í Samfylkingunni höfum staðið á fyrningarleiðinni í veiðigjaldsmálinu og erum stolt af því og hæstv. sjútvrh. á ekkert með það að vera að snúa út úr málum sem koma hér fyrir með þvættingi af þessu tagi.