Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:46:18 (4334)

2004-02-18 13:46:18# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að þessi umræða er farin af stað hér því að hv. þm. eru greinilega búnir að gleyma því hvað var að gerast á þeim tíma þegar auðlindanefndin og endurskoðunarnefndin störfuðu.

Samf. átti þrjá fulltrúa í auðlindanefndinni. Þeir skrifuðu allir undir nál. fyrirvaralaust þar sem tveir valkostir voru gefnir sem forsenda þeirrar sáttar sem síðan varð þó að hún yrði ekki eins víðtæk og maður gat á þeim tíma gert sér vonir um.

Þrír aðrir nefndarmenn skrifuðu undir með fyrirvara, þeir Guðjón Hjörleifsson, Ari Edwald og Ragnar Árnason. Þeir skrifuðu undir með fyrirvara, þeir höfðu fyrirvara við þessi atriði en ekki þingmenn Samf.

Síðan var það Samf. sem hljóp frá undirskriftum sinna manna þegar kom til þess að afgreiða málið frá Alþingi sem lög. Það er ágætt fyrir hv. þm. Mörð Árnason að minnast þessa. Hann var ekki hér þegar þetta var í umræðunni og afgreitt þannig að honum kannski fyrirgefst að muna það ekki. Ég ætla síðan ekki að gera að umtalsefni þann skæting sem hann af vana hnýtti aftan í ræðu sína hér.