Nám í listgreinum á háskólastigi

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:05:10 (4342)

2004-02-18 14:05:10# 130. lþ. 66.2 fundur 397. mál: #A nám í listgreinum á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um hvað líði áformum um nám á háskólastigi í listgreinum á Akureyri eða norðan heiða. Fyrirspurnina flutti hv. þm. Hlynur Hallsson, varaþingmaður þess sem hér talar, þegar hann sat á þingi fyrir jólaleyfi en ekki tókst að fá fyrirspurninni svarað á meðan hann sat á þingi og reyndar ekki heldur meðan þáv. menntmrh. Tómas Ingi Olrich og þingmaður þess kjördæmis á þeirri tíð sat í stóli menntmrh. þannig að það kemur í hlut nýs hæstv. ráðherra að svara fyrir spurninguna og er auðvitað ekki verra því þá vitum við hvaða viðhorf hæstv. núv. ráðherra ber til þessa málefnis.

Tilefnið er það að þegar Myndlista- og handíðaskóla Íslands var breytt í Listaháskóla Íslands má segja að staða Myndlistarskólans á Akureyri hafi breyst eða sá skóli hafi í raun setið eftir sem sérnámsskóli og ekki var þá samtímis tekin nein ákvörðun um að færa það nám upp á háskólastig einnig.

Það er mikill áhugi á því innan Háskólans á Akureyri og meðal aðstandenda listnáms á svæðinu að taka upp nám í myndlist og hönnun og jafnvel einnig á sviði tónlistarkennslu á háskólastigi á Akureyri. Þó að þarna yrði um litlar einingar að ræða mundu þær geta innan veggja háskólans sem sérstök deild t.d. í tengslum við félagsvísinda- eða kennaradeild, fallið mjög vel að þeirri starfsemi sem þarna er verið að byggja upp, gert námsframboðið við Háskólann á Akureyri fjölbreyttara og öflugra.

Það er einnig ljóst að staða myndlistarskólans og tónlistarskólans er auðvitað til umræðu og sveitarfélagið veltir því fyrir sér hversu miklar skyldur það beri til þess að standa straum af þessu námi á framhaldskólastigi svo ekki sé talað um ef það færi upp á háskólastig og hvers vegna ríkið komi þá ekki meira að því í þessu tilviki eins og öðrum sambærilegum.

Það er einnig ljóst og það er engin ástæða til að ætla annað en að forsvarsmenn Listaháskólans í Reykjavík væru áhugasamir um að námi á háskólastigi yrði sömuleiðis komið á á Akureyri. Þar gæti orðið um öflugt samstarf og samvinnu að ræða. Menn gætu skipst á kennurum og eftir atvikum gæti það styrkt hvað annað auk þess sem það veitti þá í leiðinni vissa samkeppni og tryggði meiri fjölbreytni en ella væri þannig að það er engin ástæða til að óttast að það þyrfti á neinn hátt að stangast á. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. hvað líði undirbúningi þessa máls. Er í bígerð að taka upp nám á háskólastigi á sviði listgreina á Akureyri eða er einhver skoðun á því a.m.k. í gangi?