Verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:21:22 (4348)

2004-02-18 14:21:22# 130. lþ. 66.3 fundur 513. mál: #A verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Mörður Árnason:

Forseti. Þá athugasemd er rétt að gera við þetta að mér þykir stofnun sú sem hæstv. menntmrh. sækir upplýsingar sínar til ekki gera nægilega vel grein fyrir því sem að er spurt í þessari fyrirspurn. Mér finnst að hæstv. menntmrh. verði að skoða þau svör sem hún fær frá stofnun sem þessari og fá fram hið raunverulega efni sem spurt er um en gefa ekki stofnuninni einni möguleika á að gera þetta.

Það er klárt að í Ríkisútvarpinu hefur verið tilhneiging til þess að ráða menn ekki, bæði á fréttastofunni og annars staðar, heldur halda þeim í verktöku, jafnvel í mörg ár vegna ýmiss konar innanhússbírókratíu en auðvitað líka vegna þess að Ríkisútvarpið er skipulagslega í töluverðu uppnámi því þessi rammi opinberrar stofnunar hentar því ekki. Í því hefur ekkert verið gert og á því stendur. Ég vona að hinn vaski og dugmikli núv. hæstv. menntmrh. sem nýtekinn er við störfum muni bæta úr því með aðstoð okkar þingmanna.