Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:26:41 (4351)

2004-02-18 14:26:41# 130. lþ. 66.4 fundur 444. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Undanfarin missiri hefur áfengisauglýsingum fjölgað mjög í samfélagi okkar og þær eru með ýmsum hætti, þ.e. í fyrsta lagi duldar auglýsingar í formi umfjöllunar sem borgað er fyrir í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Umræða um þessar duldu auglýsingar kom upp hér fyrir nokkrum mánuðum og var þá sýnt fram á ýmis dæmi um þær.

Í öðru lagi eru bjórauglýsingar undir því yfirskini að verið sé að selja léttbjór eða einhvers konar pilsnerútgáfu af bjórtegundinni ákaflega áberandi. Enn er í gangi nokkuð kátleg deila sem við könnumst við um brugg með sykri. Fleira er af því tagi, auglýsingar sem ekki nokkrum manni dettur í hug að snúist um annað en áfengan bjór þó orðunum léttöl eða pilsner sé skotið inn í auglýsinguna með lítt áberandi hætti.

Í þriðja lagi er um að ræða beinar og óduldar auglýsingar þar sem ekki virðist hirt um neins konar dulbúning eða útúrsnúning í þeim krafti að menn megi þetta með einhverjum hætti. Það er ekki hægt að sýna myndband hér í salnum en ég tók með mér tvö dæmi frá því að ég var að athuga málið í október--nóvember. Annars vegar er hér hvítvínsauglýsing um ástralskt hvítvín, örugglega ágætt, í Nýju lífi í október 2003 á blaðsíðu 45. Þetta er augljós auglýsing, hæstv. forseti. Hins vegar er hér auglýsing úr öðru blaði, annars konar blaði, Viðskiptablaðinu. Það er frá 17. október í fyrra, á blaðsíðu 15. Hún er ekki um léttvín, sem mönnum þykir þó heldur skárra að auglýsa og hvetja til neyslu á en sterku víni. Hún er um koníak. Ég get vottað það sjálfur að þetta er alveg prýðilegt koníak. En þetta er líka augljós auglýsing, ódulin og ekkert falin. ,,Vínið fyrir helgina.`` Það er þessi tegund af koníaki hér í áberandi ramma í Viðskiptablaðinu, ágæti forseti.

Ég var uppi í Kringlu um daginn og gekk þar fram hjá áfengisversluninni sem við alþingismenn rekum víst hér og önnur stjórnvöld í landinu. Fyrir utan hana var bíll. Ég man nú ekki af hvaða tegund. Í honum voru bjórflöskur af Tuborg--gerð. Ég kannaði ekki hvort það voru léttölsflöskur eða ekki en þær litu út eins og þær bjórflöskur sem allajafna eru seldar. Getraunin var sú hversu margar flöskur væru í bílnum. Þarna eru sem sé tengdir saman bílar og bjór á fremur ósmekklegan hátt.

Það eru lög í landinu, héldu menn, þar sem áfengisauglýsingar eru bannaðar, þ.e. 20. gr. laga nr. 75/1998 og þess vegna eru til komnar fyrirspurnir mínar. Ég hef greinilega ekki tíma til að lesa þær upp, en þær liggja hér fyrir á þingskjali og eru um gildi þessara laga og um hvað sé gert til að fylgja þeim eftir og um áhuga hæstv. dómsmrh. á að breyta þeim ef hann telur að ekki sé hægt að fylgja þeim eftir í núverandi formi.