Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:33:32 (4353)

2004-02-18 14:33:32# 130. lþ. 66.4 fundur 444. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Ég álykta af þeim að dómsmrh. hafi að vísu enga skoðun á þessu máli í sjálfu sér umfram það sem stendur nákvæmlega í lögum en að hann vísi til þess að áfengis- og vímuvarnaráð hafi þá ekki staðið sig nægilega vel í hlutverki sínu við að upplýsa um þessar auglýsingar sem það er sett til þess að upplýsa og að lögreglan telji ekki að um neins konar lagabrot sé að ræða þar sem hún hefur ekki hafist handa um neins konar rannsókn sjálf á þeim dæmum sem ég rakti hér. Ég get getið þess að í upphaflegri fyrirspurn, sem forseta og starfsmönnum hans þótti þó ekki ráð að hafa í því formi, voru rakin um það bil 20 tilvik um áfengisauglýsingar frá því á þessum tíma, október-nóvember 2002.

Ráðherra hefur gert skyldu sína í þessu svari en ekki þumlung, eða eigum við kannski að segja ekki einn einasta sjúss, fram yfir það. Það veldur mér vonbrigðum vegna þess að ég taldi að hér gæfist tækifæri til þess að ræða við dómsmrh. um málefni sem honum er gert að hafa yfirumsjón með.

Dómsmrh. á kost á því að koma fram á eftir og ég vildi þá gjarnan að hann svaraði mér um það hvað honum finnst um þetta sjálfum og í öðru lagi hvort hann telji þá að áfengis- og vímuvarnaráð og lögreglan hafi eða hafi ekki staðið sig í þeirri skyldu sem hann rakti áðan að lög stæðu til.