Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:42:05 (4357)

2004-02-18 14:42:05# 130. lþ. 66.5 fundur 512. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur beint til mín fyrirspurn um hvað líði störfum nefndar sem vinnur að mótun heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana.

Umfangsmikil gagnasöfnun um meðferðarúrræði og stöðu þeirra er nú á lokastigi og jafnframt er verið að skoða fyrirkomulag meðferðarmála í helstu nágrannalöndum okkar. Skýrsla þessi er unnin af starfshópi á vegum heilbr.- og trmrh. á þessum vetri. Hlutverk hópsins er að afla grunngagna um framboð á meðferð og annarri þjónustu sem áfengis- og vímuefnaneytendum stendur til boða og sem nýtur opinberra styrkja eða er rekin með opinberu fé.

Tilgangur starfsins var að afla upplýsinga sem að gagni mega koma við mótun heildarstefnu við uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar á Íslandi. Formaður starfshópsins var Sigurður Gils Björgvinsson, deildarstjóri í heilbr.- og trmrn. Aðrir þátttakendur voru Hrafn Pálsson deildarstjóri, Magnús Skúlason deildarstjóri, Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri frá heilbr.- og trmrn. Þorgerður Ragnarsdóttir, fyrrv. framkvæmdastjóri áfengis- og vímuvarnaráðs, var starfsmaður hópsins.

Starfshópurinn valdi að afla sér upplýsinga með því að gera könnun hjá meðferðarstofnunum, áfangaheimilum og öðrum stöðum sem á einhvern hátt veita fólki sem á í erfiðleikum vegna áfengis- og vímuefnaneyslu aðstoð. Sent var út bréf til yfirmanna stofnana til að skýra tilgang gagnaöflunarinnar. Þar var lögð megináhersla á að kanna hvaða meðferðarúrræði standa til boða hérlendis og hve margir geta notið þeirrar þjónustu. Einnig var lögð áhersla á að kanna rekstrarform og stjórnskipulag þeirra aðila sem starfa að meðferðarmálum, tilgang rekstursins og hugmyndagrundvöll. Jafnframt eru kannaðar kröfur stofnunarinnar til starfsmanna, þá sérstaklega áfengisfulltrúa, og hvaða endurmenntunarmöguleikar eru í boði. Jafnframt er sérstaklega skoðað hvaða árangursmælingar eru notaðar í dag. Eins er verið að kanna fyrirkomulag þessara mála annars staðar, eins og fram hefur komið.

Vinnuhópurinn er einnig að skoða verkaskiptingu málaflokksins milli ríkis og sveitarfélaga og eins skiptingu málaflokksins milli ráðuneyta. Það er áætlað að vinnuhópur ráðuneytisins skili áliti í næsta mánuði.