Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:44:50 (4358)

2004-02-18 14:44:50# 130. lþ. 66.5 fundur 512. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er ljóst af svörum hæstv. ráðherra að hér er um að ræða gríðarlega umfangsmikla vinnu og ég held að fullt tilefni hafi verið til að ráðast í hana. Ástæðuna fyrir því að ég lagði fram þessa þáltill. hef ég þegar rakið. Það er alveg ljóst mál að hér er um að ræða mjög mikið úrlausnarefni og þýðingarmikið verk sem þessar meðferðarstofnanir eru að vinna. Hins vegar er líka það að hér er um að ræða gríðarlega mikla peninga sem hið opinbera ver til þessara verkefna.

Ég vek hins vegar athygli á því að þessi þáltill. var samþykkt 3. maí árið 2002 þannig að bráðum eru liðin tvö ár frá því að hún var samþykkt sem þál. Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið að þessari vinnu verði hraðað og ég fagna því að hjá hæstv. ráðherra kom fram að tillögur nefndarinnar líti dagsins ljós í mars nk.

Ég vil segja í framhaldi af því að ég tel mjög þýðingarmikið að þegar í stað verði unnið að því að gera þær úrbætur sem reynast nauðsynlegar. Síðan þarf væntanlega að fara fram umræða á grundvelli skýrslunnar um það sem þarna er verið að leggja til og reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Eins og málin hafa þróast er, að mínu mati, mjög brýnt að menn vindi sér í þessi verkefni. Þessi tvö ár eru bráðum liðin frá því að Alþingi ákvað að taka þessi mál til endurskoðunar og við þurfum þess vegna að ljúka þeirri endurskoðunarvinnu sem allra fyrst.

Í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni 22. janúar 2003 um sama efni kom fram að fenginn yrði sérfræðingur hingað til lands þá um vorið til að aðstoða nefndina. Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. ráðherra hvort af því hafi orðið, þá með hvaða hætti þessi sérfræðingur hafi komið að verkinu og hvaða hugmyndir hafi verið um að ræða. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra geti á þessari stundu rætt frekar efnisatriði þeirra tillagna sem eru í burðarliðnum en fróðlegt væri að hæstv. ráðherra greindi okkur frá niðurstöðu sem fengist úr þessari vinnu.