Málefni heilabilaðra

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:52:23 (4361)

2004-02-18 14:52:23# 130. lþ. 66.6 fundur 545. mál: #A málefni heilabilaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir lagði fyrir mig er: ,,Hvað hafa margir heilabilaðir einstaklingar verið á biðlista eftir viðeigandi dvalarrými, skipt eftir árum frá árinu 2000?``

Það er ekki haldinn sérstakur biðlisti fyrir heilabilaða einstaklinga og fjöldi þeirra er ekki aðgreindur frá öðrum í vistunarskrá. Heilabilun getur hvort sem er verið aðalástæða umsóknar eða meðvirkandi ástæða og vistunarmatið er ekki þannig uppbyggt að hægt sé að fá glögga mynd af því hvort heldur er. Fjöldi þeirra sem bíða eftir hjúkrunarvist og eru samkvæmt matsaðila í mjög brýnni þörf eru samkvæmt vistunarskrá í janúarlok 2004 alls 465 á landinu öllu.

,,2. Hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana til að stytta biðlistana? Ef svo er, til hvaða ráðstafana?``

Áhrifamesta úrræðið til að seinka umsókn um hjúkrunarvist eru sérstakar dagvistir fyrir heilabilaða. Bið eftir dagvistarúrræði hefur allt frá því að fyrsta dagvistin opnaði fyrir 18 árum og fram til 2003 verið innan viðunandi marka. Á árinu 2000 voru reknar tvær dagvistir í Reykjavík en árið 2001 var opnuð sú þriðja sem rekin er af Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga við Austurbrún í Reykjavík, svokallað Fríðuhús.

Biðlistinn hefur lengst mjög á undanförnum tveimur árum en nú hefur verið tekin ákvörðun um fjölgun um 20 rými til viðbótar með opnun dagvistar við Hjúkrunarheimilið Eir. Einnig er í bígerð opnun dagvistar í Kópavogi síðar á þessu ári. Árið 2001 var Hjúkrunarheimilið Sóltún opnað þar sem ríflega þriðjungur heimilisins, eða 32 pláss, voru eingöngu fyrir heilabilaða. Á þessu ári verða opnuð alls 150 hjúkrunarrými og þótt ekkert þeirra sé sérstaklega ætlað heilabiluðum einstaklingum er auðvelt að nýta flest þeirra þannig. Herbergin á Eir, 40 rými, og á Hrafnistu í Reykjavík, 60 rými, eru einbýli í litlum einingum sem gerir það að verkum að þau geta hvort heldur er nýst fyrir heilabilaða eða aðra sem þurfa á hjúkrunarvist að halda. Það er hins vegar spurning um mönnun og það er núna úrlausnarefni rekstraraðila og ráðuneytisins að komast að niðurstöðu um nánari nýtingu þessara rýma.

,,3. Hvaða stuðningur stendur til boða þeim aðstandendum sem annast heilabilaða í heimahúsum?``

Dagvistir eru þrjár alls með 56 rýmum sem nýtast um 70 einstaklingum. Fjórða dagvistin tekur til starfa síðar á þessum vetri með 20 rýmum fyrir 25 einstaklinga og væntanleg dagvist í Kópavogi síðast á árinu. Sértækt eftirlit er fyrir sjúklinga með heilabilun á minnismóttöku öldrunarsviðs Landspítala -- háskólasjúkrahúss á Landakoti. Þar koma til greiningar um 250 einstaklingar á ári. Tæpur helmingur þeirra reyndist vera með heilabilun, um 30% með ástand sem mun leiða til heilabilunar. Á hverju ári eru 400 einstaklingar í eftirliti á móttökunni. Í tengslum við móttökuna er boðið upp á stuðningshópa fyrir aðstandendur sem takmarkaður fjöldi, 20--30, getur nýtt sér á ári.

,,4. Hefur verið metið hver áhrif ónógt dvalarrými hefur á atvinnuþátttöku og heilsufar aðstandenda sem annast heilabilaða í heimahúsum?``

Tæplega 10% sjúklinga með heilabilun eru innan við 67 ára aldur. Aðeins 22 fengu örorkulífeyri vegna heilabilunar í ársbyrjun 2004 samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Mikill meiri hluti sjúklinga með heilabilun er því ekki lengur á vinnumarkaði og gera má ráð fyrir að hlutfall maka á vinnumarkaði sé ekki mikið frábrugðið því.

Félag aðstandenda heilabilaðra gerði könnun meðal félagsmanna sinna sem að nokkru leyti sýndi þessi áhrif, þó að hún væri fyrst og fremst gerð til að skoða ójafnræði milli kynjanna í umönnun. Í þeirri könnun kom fram að nokkuð er um það að vinnandi aðstandendur eru frá vinnu í nokkrum mæli vegna sjúklinganna. Engin heildarúttekt hefur farið fram hér á landi á heilsufari aðstandenda sem annast um heilabilaðan einstakling í heimahúsi, en til eru litlar rannsóknir sem gefa nokkra vísbendingu. Þær hafa einkum beinst að líðan aðstandenda frekar en líkamlegu heilsufari. Samkvæmt þeim er aðstandendum hættara við þunglyndi og kvíða en öðrum á svipuðum aldri.

Nú er verið að undirbúa samþættingu félags- og hjúkrunarþjónustu í heimahúsum í Reykjavík og þá mun nýtt mælitæki sem spegla mun þjónustuþörf allra eldri borgara sem eftir þjónustu leita, gera þjónustuaðilum mögulegt að mæta þörfum skjólstæðinga af meiri nákvæmni en áður.