Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:52:07 (4377)

2004-02-18 15:52:07# 130. lþ. 67.21 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég kem upp til þess að þakka hv. þm. fyrir að flytja þetta mál í þinginu. Ég tel fulla ástæðu til þess. Þá er ég sérstaklega að vísa til þess að taka út bráðabirgðalagaákvæðið úr stjórnarskránni. Það er greinilegt að stjórnvöldum er ekki treystandi fyrir því bráðabirgðalagaákvæði. Það sýndi sig vel í sumar þegar því var beitt í máli sem hafði verið til umfjöllunar í þinginu veturinn áður og þingið hafði ákveðið að afgreiða ekki. Þá greip ríkisstjórnin til þess ráðs að setja bráðabirgðalög um þetta sama mál í staðinn fyrir að kalla þingið saman. Ef eitthvað hefði allt í einu breyst þá hefðum við haft rök fyrir því að taka málið upp.

Það er hárrétt sem hv. þm. hélt fram, að með þessu eru menn að sækja í sama farið og áður var gagnvart bráðabirgðalögunum. Í sjálfu sér er ekki hægt að halda því fram með neinum sterkum rökum að á neinu bráðabirgðalagaákvæði þurfi að halda þegar svo er komið að hægt er að kalla þingið saman með mjög stuttum fyrirvara. Ef um væri að ræða þörf fyrir bráðabirgðalagaákvæði þá ætti að tengja það við algjörlega sérstök tilvik, stríðsástand, árás á landið eða eitthvað sem gerði það að verkum að ekki væri hægt að kalla þingið saman. Það er full ástæða til þess að ræða þessa tillögu. Mér finnst í sjálfu sér að úr því að stjórnvöld hafa sýnt sig í því að nota þetta ákvæði með þeim hætti sem við þekkjum frá því í sumar þá eru það góð rök fyrir því að taka þetta ákvæði upp.

Um hinn hluta málsins, þ.e. að þingmenn eigi ekki að vera ráðherrar, gegnir kannski svolítið öðru máli. (KHG: Þveröfugt. Ráðherrar ...) Afsakið. Það er rétt, hv. þm., að ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn. Þetta er réttmæt ábending frá hv. þm. Um það gegnir dálítið öðru máli. Menn þyrftu kannski að velta ýmsu dálítið fyrir sér í sambandi við útfærslu á því atriði því að það hefði í för með sér að tiltölulega litlir þingflokkar fengju miklu meira vægi í stjórnmálum á Íslandi eftir að þetta ákvæði hefði verið tekið upp. Ég skil ósköp vel að hv. þm. sem kemur úr Framsfl. vilji auka afl flokksins innan veggja Alþingis því að auðvitað er erfitt fyrir þingmenn Framsfl. að fást við öll verkefni sem því fylgja að taka þátt í ríkisstjórn verandi með helminginn af þingflokknum sitjandi í ríkisstjórninni. Auðvitað er það vandi sem kannski brennur dálítið á framsóknarmönnum núna. En þeir eru ekki einir um að hafa viljað skoða þessa hugmynd. Það hefur líka verið vilji innan Samfylkingarinnar til þess að skoða þessa hugmynd og það er vissulega ástæða til að ræða hvernig best megi draga skýrari línur milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Þróun síðustu ára hefur í raun verið á fremur vondan veg að mér finnst hvað varðar áhrif framkvæmdarvaldsins. Sérstaklega finnst mér að ríkisstjórnin eða síðustu ríkisstjórnir hafi einhvern veginn náð meiri tökum á Alþingi en áður var. Hér virðast þingmenn stjórnarliða ekki vera eins sjálfstæðir og þyrfti til þess að meirihlutaríkisstjórnir noti ekki aðstöðu sína til þess að knýja fram niðurstöðu sem er jafnvel í andstöðu við vilja þings og þjóðar.

Hægt er að benda á dæmi um að málum hafi verið fylgt eftir í gegnum þingið ár eftir ár þar sem vitað er að andstaða hafi verið í ríkisstjórnarflokkunum við málin og algjör andstaða við málin frá hendi stjórnarandstöðunnar svo að ég vísi bara til sjávarútvegsmálanna sem menn þekkja. Þar er auðséð að stefna hefur verið keyrð með minnihlutastuðningi Alþingis og mikilli andstöðu þjóðar í mörg ár. Það er mikið umhugsunarefni þegar framkvæmdarvaldið sýnir þessa hlið á sér í svo mikilvægu máli sem þessu. Þetta er auðvitað ekki eina dæmið um slíkt að alþingismenn, ríkisstjórn eða framkvæmdarvaldið, hafi ,,vit fyrir þjóðinni`` í einstökum málum. Lýðræðið snýst þó um að meiri hlutinn eigi að fá að ráða innan allra skynsamlegra marka. Þá á ég við innan þeirra marka að ekki sé verið að níðast á minni hlutanum, að mannréttindi séu virt o.s.frv. Það þyrftu þeir að muna betur sem fylgja meirihlutastjórnum eins og hér hafa tíðkast. Ég held að okkur vanti bókstaflega tímabil þar sem minnihlutastjórnir væru við völd á Íslandi til þess að menn gætu lært betur að virða lýðræðið og vilja meiri hluta Alþingis sem ekki hefur verið gert á síðustu árum. Þess vegna eru full rök fyrir því að menn leiti leiða til þess að draga skýrari línur milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins. Ég virði alveg þá viðleitni hv. þm. með þessu frv. en tel að útfærsluna í þessu efni þurfi að ræða alveg sérstaklega því að ég á erfitt með að ímynda mér að menn mundu t.d. vera alveg sáttir við það að þegar ríkisstjórn hefur verið mynduð í þessu landi þá bætist allt í einu við 12 eins og núna í þessu tilfelli, þ.e. hugsanlega 12 nýir þingmenn ... (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Á ræðumaður mikið eftir af ræðu sinni?)

Hæstv. forseti. Nei, ég er að ljúka ræðu minni. Aðeins eru tvær setningar í viðbót.

Ég á erfitt með að sætta mig við þá tilhugsun að það fyrsta sem gerist þegar ríkisstjórn sest að völdum sé að t.d. 12 annaðhvort ráðherrar eða nýir þingmenn bætist við stjórnarliðið þann dag. Þetta þurfa menn að hugsa svolítið betur og velta fyrir sér. Er ekki líka verið að gefa lýðræðinu svolítið langt nef með því að fram hafi farið kosningar og þar hafi menn kosið áhrifamenn í stjórnmálum og síðan þegar mönnum hefur verið stillt upp í ríkisstjórn þá sé allt í einu búið að færa völdin til? Áhrifamönnum í pólitík fjölgi þá hjá stjórnarflokkunum sem svarar heilli ríkisstjórn?

Þetta er umhugsunarefni sem ég vildi koma að í umræðunni. Ég ætla ekki að ræða það betur núna en mér finnst full ástæða til þess að fara vel yfir það hvort hægt sé að finna leiðir sem gera okkur betur fært að kljúfa á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.