Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:52:52 (4409)

2004-02-19 11:52:52# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að reyna að grafast fyrir um hvaða viðhorf hæstv. utanrrh., og þar með íslenska ríkisstjórnin, hefði til hugmynda um að friðargæslusveitir á vegum Atlantshafsbandalagsins færu inn á átakasvæðin í Palestínu. Mér fundust svör hæstv. utanrrh. loðin. Kannski er það eðlilegt vegna þess að málið er tiltölulega nýtt og kemur upp, eins og hæstv. ráðherra segir, í tengslum við breytingar sem kunna að verða á málum í Írak.

Ég hef ekki haft jafnmikinn tíma og hæstv. utanrrh. til að velta þessu fyrir mér en tel að menn eigi ekki að útiloka neitt sem hugsanlega gæti stillt til friðar eða dregið úr átökum í þessum löndum. Atlantshafsbandalagið hefur verið að breytast, eðli þess og hlutverk, og ég tel að Íslendingar eigi frekar að ýta undir það að bandalagið eflist áfram í þeim farvegi að verða alþjóðlegt friðarbandalag. Menn ræddu það hér fyrir hartnær áratug að sú ætti þróunin að verða með Atlantshafsbandalagið og margt hefur gerst síðan sem má segja að staðfesti að sú þróun sé í gangi.

Ég held að menn hafi reynt svo margt til að draga úr viðsjám þarna og það hefur ekki tekist, m.a. vegna þess að Bandaríkjamenn hafa dregið lappirnar og Ísraelsmenn hafa ekki viljað fá alþjóðlegt herlið þarna inn. Nú hafa hins vegar í tengslum við átökin í Írak og í tengslum við forsetakosningar í Bandaríkjunum skapast ákveðnar aðstæður sem gera það að verkum að hugsanlega er hægt að ná alþjóðlegu sammæli um að Atlantshafsbandalagið fari inn á svæðið til þess beinlínis að draga úr átökum.

Ísland hefur rödd. Ísland hefur ekki her en Ísland hefur rödd og ég held að það skipti máli að við styðjum viðleitni af þessu tagi á alþjóðavettvangi.