Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:27:05 (4418)

2004-02-19 12:27:05# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili því sjónarmiði sem hér kom fram að sum svæði eru þannig að það er mjög sérstakt að sveitarfélagið eitt eigi að standa í að halda niðri stofnum á öllu því svæði, eins og á Mývatnssvæðinu. Ég veit að það er mjög dýrt að standa í að hemja ref og mink þar, og sveitarfélagið er ekki mannmargt og hefur því ekki mjög miklar tekjur. Ég bind vonir við að í nefndarstarfinu endurspeglist þessi sjónarmið þannig að vel má vera að eitthvert nýtt kerfi komi upp úr því.

Varðandi það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um að stofnanir umhvrn. hefðu lítinn áhuga á því að halda í við ref og mink get ég alls ekki tekið undir það. Ég vil benda á að núna, þegar sum sveitarfélögin hafa jafnvel verið að tala um að hætta alveg að halda niðri ref og mink, hefur Umhverfisstofnun og starfsmenn hennar einmitt bent á að það er lagaleg skylda sveitarfélaganna að reyna að standa sig eins vel og þau geta í því að halda þessum stofnum niðri og nýta til þess það fé sem veitt er á fjárlögum og svo auðvitað fé sem þau veita sjálf. Við endurgreiðum þeim það sem við höfum úr að spila í fjárlögum og svo borga þau sjálf á móti. Það er lagaleg skylda þeirra og Umhverfisstofnun hefur auðvitað bent á þetta af því að Umhverfisstofnun vill að sveitarfélögin haldi áfram að stunda þessar veiðar. Mér finnst óréttmætt að saka þessar stofnanir um að vilja það ekki.