Minnst látins fyrrverandi alþingismanns

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:01:24 (4476)

2004-02-23 15:01:24# 130. lþ. 69.1 fundur 342#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Forseti (Halldór Blöndal):

Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður, andaðist í fyrradag, laugardaginn 21. febrúar. Hún var 73 ára að aldri.

Svava Jakobsdóttir var fædd í Neskaupstað 4. október 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Jakob Jónsson prestur, lengst af í Reykjavík, og doktor í guðfræði og Þóra Einarsdóttir húsmóðir. Svava fluttist með foreldrum sínum til Kanada árið 1935 og dvaldist þar fimm ár þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Hún lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og AB-prófi í ensku og enskum bókmenntum í Massachusetts í Bandaríkjunum 1952. Hún stundaði síðan framhaldsnám í forníslenskum bókmenntum í Oxford á Englandi 1952--1953 og nám í sænskum nútímabókmenntum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1965--1966.

Svava Jakobsdóttir var ritari í utanríkisráðuneytinu og íslenska sendiráðinu í Stokkhólmi 1955--1960. Hún var kennari við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963--1964, blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsins 1966--1969 og starfsmaður við dagskrárdeild Ríkisútvarpsins 1969--1970. Við alþingiskosningarnar 1971 var hún kjörin þingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík, var landskjörinn þingmaður til 1978 og þingmaður Reykvíkinga 1978--1979. Hún sat á 9 þingum alls.

Svava Jakobsdóttir gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968--1971 og í Rannsóknaráði ríkisins 1971--1974. Árið 1971 var hún skipuð í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila, árið 1973 í nefnd til að semja reglur um viðbótarritlaun til rithöfunda og í nefnd til að semja frumvarp um Launasjóð rithöfunda. Hún sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1972, 1974, 1977 og 1982. Í Norðurlandaráði var hún 1978--1979, í Rithöfundaráði 1978--1980 og í safnráði Listasafns Íslands 1979--1983. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980--1983. Í stjórn Leikskáldafélags Íslands var hún 1986--1990.

Trúnaðarstörf þau sem Svövu Jakobsdóttur voru falin eru vísbending um þau mál sem hún lét sig miklu skipta á þeim tæpa áratug sem hún sat á Alþingi. Það voru jafnréttismál og önnur velferðarmál og mál sem vörðuðu menningu, bókmenntir og listir.

Svava Jakobsdóttir átti sér langan og merkan rithöfundarferil. Tvítug að aldri tók hún þátt í smásögukeppni á vegum tímaritsins Lífs og listar og var saga hennar metin best smásagnanna. Fyrsta bók hennar, smásagnasafnið 12 konur, kom út 1965. Hún samdi smásögur, skáldsögur, leikrit og fræðirit, var vandvirkur og frumlegur höfundur. Leikrit hennar hafa verið sýnd á leiksviði og í sjónvarpi og flutt í útvarpi hér á landi og erlendis. Rit hennar hafa verið þýdd á mörg tungumál. Hún var gagnmerkur rithöfundur.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Svövu Jakobsdóttur með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]