Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:36:24 (4486)

2004-02-23 15:36:24# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum hefur orðið til þess að auka álögur á þá sem hafa lægstu launin. Persónuafslátturinn hefur ekki fylgt raungildi launanna sem hefur orðið til þess að þeir sem lægst hafa launin greiða hærri skatta en ella hefði verið. Þarna mun vanta a.m.k. yfir 10 þús. kr. svo að persónuafslátturinn haldi því raungildi sem lagt var upp með þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp.

Annað atriði sem mig langar til að víkja að varðandi það þegar við tókum upp staðgreiðslukerfið er sjómannaafslátturinn. Þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp var sjómannaafslættinum breytt úr því að vera prósentutengd tala af launum hvers manns upp á 12% sem var dregin frá tekjum yfir í að vera gert að jafnlaunatæki innan sjómannastéttarinnar. Við þessa breytingu lækkaði kostnaður ríkissjóðs af sjómannaafslættinum. Í staðinn hafði sjómannaafslátturinn þau áhrif að þeir sem höfðu lægri launin innan stéttarinnar höfðu miklu meiri rauntekjur en áður hafði verið. Ef tekið væri dæmi af manni sem hafði 2,5 millj. í árslaun fyrir og eftir breytinguna yfir í staðgreiðslukerfið munar 300 þús. kr. sem rauntekjur sjómanns með 2,5 millj. eru hærri í dag en þær voru áður en staðgreiðslukerfið var hér tekið upp, eingöngu vegna þessarar breytingar.

Að sama skapi minnkaði vægi sjómannaafsláttarins fyrir þá sem hærri höfðu tekjurnar. Þetta var gert með fullum vilja og vitund allra innan sjómannasamtakanna og er í raun og veru eitt besta verk sem sjómannastéttin hefur gert, og gert samkomulag um við ríkið á sínum tíma. Nú er lagt til að sjómannaafslátturinn verði lagður niður þvert ofan í það sem gerist hjá öðrum þjóðum.