Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:47:05 (4501)

2004-02-23 16:47:05# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. 5. þm. Norðaust., Steingríms J. Sigfússonar, kom ekki á óvart og er í anda þeirrar málafylgju sem hann hefur yfirleitt haft um verksmiðjur og stóriðju á því svæði sem við erum að tala um og varðar því ekki nema að litlu leyti það álitamál sem hér er uppi hvort tiltæk ráð séu til að hækka nokkuð, ef eitthvað, stífluna í Laxá til þess að gera hana arðbæra, til þess að draga úr sandburði í Laxá og þar fram eftir götunum.

Hv. þm. gerði lítið úr því að sandburður væri vandamál í Laxá, sem hann veit sjálfur að er ekki rétt. Ég tók líka eftir því að þegar hann var að tala um að sandburður í Kráká hefði minnkað gleymdi hann að hafa orð á því sérstaklega að það er að þakka þeim geysilegu fjármunum sem Landsvirkjun hefur varið til uppgræðslu í Krákárbotnum að sandburður árinnar er nú minni og það er henni að þakka að farvegurinn er nokkuð farinn að dýpka norðan til í ánni. Því hefði mátt vera til skila haldið.

En það voru þessi ummæli: Ef Laxárvirkjun verður lögð niður og ekki er hægt að reka hana, þá verður bara að hafa það. Ef kísilgúrverksmiðjan verður lögð niður og ekki kemur kísilduftverksmiðja í hennar stað, þá verður bara að hafa það. Ef ekki kemur álver við Húsavík eða við Eyjafjörð, þá verður bara að hafa það.

Þá segi ég á móti: Hver verður fjárhagur og hver verður staða t.d. sveitarfélagsins í Aðaldal ef við horfum á það með opnum augum að Laxárvirkjun verði niður lögð með öllum þeim umsvifum sem henni fylgja, sem hv. þm. var að gera lítið úr? Ég tel að með því að gera lítið úr henni hafi hann brugðist umbjóðendum sínum í Aðaldal.