Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 16:51:35 (4503)

2004-02-23 16:51:35# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Halldór Blöndal (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að að þessu sinni ræddi hann ekki um að kísilgúrverksmiðjan skipti ekki miklu máli fyrir Mývetninga og það er rétt að í þessari ræðu talaði hann ekki á móti t.d. álveri við Eyjafjörð. Það er samt sem áður sá tónn sem verið hefur hjá hv. þm. þegar hann hefur rætt atvinnumál á Norðurlandi. Hv. þm. á ekki að gera lítið úr sínum skoðunum og á ekki að vera hræddur við að þær séu rifjaðar upp. Það er grundvallarskoðun hans að það beri ekki að byggja þvílík mannvirki sem ég nefndi áðan, byggja á þeim atvinnu í viðkomandi byggðarlögum. Það hefur verið grundvallarskoðun hv. þm. Ef hann hefur breytt um skoðun er það ánægjulegt og þá vil ég vinna vel að því með honum að koma álveri í Eyjafjörð og hlakka ég til þeirra daga.

Um stífluna vil ég segja: Hér er ekki verið að slá öðru föstu en því að athugaðir verði möguleikar á því hvort með nokkurri hækkun stíflunnar verði hægt að draga svo úr sandburði árinnar og draga svo úr klakastíflum að virkjunin geti orðið arðbær, það borgi sig að endurbyggja stífluna. Um það snýst málið.

Sumir geta sagt: Það skiptir engu máli hvort það sé Laxárvirkjun í Aðaldal, ókunnugir geta sagt það. Ég og hv. þm. vitum báðir að skoðanir manna eru skiptar um þessi mál fyrir norðan og það þýðir ekki að tala eins og þar sé bara ein rödd, það eigum við ekki að gera. Á hinn bóginn get ég ekki talað fyrir fram á móti því að leitað verði leiða til að ná sáttum á þeim grundvelli að Laxárvirkjun geti áfram verið virk og áfram framleitt rafmagn og verið stuðningur við byggð í Aðaldal.