Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 17:06:02 (4509)

2004-02-23 17:06:02# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Að hrófla við lögunum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu er ekki smámál. Við skulum gera okkur grein fyrir því. Markmiðin sem birtast í 1. gr. þessara laga, að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu og að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni, verndun jarðmyndana og lax með virkri náttúruvernd, eru góð markmið sem allir geta sameinast um. Við skulum líka vera minnug þess að þegar þetta frv. var til umfjöllunar í umhvn. síðasta vetur taldi Landvernd að verndaráætlun og friðlýsing ættu að verða forsenda gildistöku þessara laga og að reglugerð um varnir gegn mengun vatnasviðs ætti að liggja fyrir þegar lögin tækju gildi.

Þetta mál er tvíþætt. Í fyrsta lagi er það um að aflétta skuli vernd af stórum hluta svæðisins í kringum Mývatn, eiginlega öllum Skútustaðahreppi og draga umtalsvert úr verndarsvæði við Mývatn og Laxá. Hins vegar er það um heimild til að hækka stíflu í Laxá. Ég ætla fyrst og fremst að fjalla um það sem snýr að verndunarþættinum.

Samfylkingin hefur reynt að leggja mat á áhrif þess að þrengja verndarsamninginn. Við höfum hugsað okkur að skoða þetta mál mjög vel í umhvn. en ætlum að skoða það með opnum huga og erum jákvæð fyrir því að endurskoða mörk verndarsvæðisins. Við erum ekki að sama skapi fylgjandi því að hækka stífluna. Það kemur satt best að segja á óvart að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. umhvrh. skuli flytja þetta mál í þessum búningi á Alþingi.

Það kemur á óvart að þau skuli velja að hafa í þessu frv. bráðabirgðaákvæði III þar sem Umhverfisstofnun er heimilað að leyfa hækkun stíflu, að vísu að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Með þessu er Alþingi í raun að vísa frá sér frekari ákvarðanatöku á því hvort stíflan verði hækkuð eður ei og setur það í hendur Umhverfisstofnunar. Samfylkingin leggst gegn þessu bráðabirgðaákvæði. Við vörum við því að rasað sé um ráð fram með þessum hætti.

Við alþingismenn höfum farið í djúpa umræðu á Alþingi um virkjunarframkvæmdir æ ofan í æ. Vinnubrögðin hér vekja menn til umhugsunar. Það er almennt sátt um það núorðið að heimildir til að virkja séu ekki veittar nema að undangengnu umhverfismati. Umhverfisnefnd er nú að fjalla um breytingarnar á lögunum um umhverfismat og það skiptir miklu máli að sátt náist um hvernig lögin verða eftir þá breytingu og að við fáum markvissa lagasetningu sem tryggi að í framtíðinni þurfum við ekki að búa við umhverfisslys.

Þrátt fyrir að sátt sé um að umhverfismat skuli fara fram að undangengnu virkjanaleyfi eigum við á Alþingi að hafa skoðanir á hlutunum. Sum mál eru þess eðlis að Alþingi sjálft á að taka ákvörðunina. Það getur verið á grundvell náttúrufars, dýralífs, einstæðrar náttúrufegurðar o.s.frv. Það getur ekki verið að við séum orðin það tæknileg í hugsun okkar og mati að ef sátt næst um að virkjanaleyfi skuli ekki veitt öðruvísi en að undangengnu umhverfismati séum við þar með eins og heilalaus hópur sem leyfir öllu að fara í umhverfismat.

Væntanlega mundi Alþingi aldrei heimila það að Gullfoss færi í umhverfismat, jafnvel þó fyrir lægi að það yrði aldrei leyft að virkja þar. Þannig hefur umræðan oft á tíðum virkað í þessum sal, þ.e. leyfum bara umhverfismatið af því við ætlum hvort eð er ekkert að virkja. Auðvitað verður að leyfa umhverfismatið til að fyrir liggi hvort hægt sé að taka ákvörðun um að virkja.

Ég gagnrýni þessa umræðu. Ég gagnrýni harðlega í hvaða farveg hún er komin og vil ekki taka þátt í henni. Ég vil að við hugsum eins og manneskjur í þessum sal. Ég vil að til séu þær náttúruperlur að fólk í þessum sal, háttvirtir alþingismenn, segi: Hér ætlum við ekki að hrófla við. Hér erum við búin að gera það sem gert verður. Hér virkjum við ekki meira. Hér hækkum við ekki stíflur.

Þannig er afstaða okkar til þessa hluta frv. og bráðabirgðaákvæðis III sem opnar gáttina fyrir það að hægt sé að hækka stífluna og virkja meira í Laxá. Þetta viljum við ekki.

Það er lítill ávinningur af því að hækka stífluna, fimm eða sex megavött. Það er ekki fullreynt með uppgræðslu út af sandburðinum, sem er í öðru orðinu notað sem forsenda þess að þarna þurfi að laga svolítið til. Þetta er mál sem er rifið upp og um það hefur ríkt sátt. Nú er ég ekki að tala um tiltekna sáttargjörð. Það hefur verið sátt um að þetta mál hafi endað með tilteknum hætti. Ég furða mig á að það sé rifið upp eins og gert er í frumvarpinu. Það er ekki sýnt fram á nauðsyn þess að koma málinu í uppnám á ný. Mér finnst fráleitt af stjórnarmeirihlutanum að þvinga svo vafasamt mál í gegnum þingið. Það vantar ekki orku fyrir norðan.

Að öðru leyti en því sem ég hef fjallað um málið mun Mörður Árnason fjalla um það af hálfu okkar í Samfylkingunni.

Stóra málið hjá heimamönnum er að fá meira svigrúm. Ég held að við eigum að leggja höfuðáherslu á það í vinnu okkar í nefndinni. Áður en ég vík að því ætla ég að fara í örfáum orðum yfir það hve viðkvæmar virkjanaákvarðanir okkar hafa verið.

Mér finnst umhugsunarefni hvaða ferli við höfum skapað. Í stærri ákvörðunum er lokaákvörðunarvaldið annars staðar. Ekki hjá Alþingi. Við vorum að fjalla um niðurstöðu 19 manna nefndarinnar á dögunum í þingflokki Samfylkingarinnar. Ég var að skoða frv. um raforkulög sem lagt var fram fyrir ári. Í greinargerð með því frv. kemur fram að allar stærri virkjanir í Noregi koma til staðfestingar Stórþingsins. Þrátt fyrir að ferlið sé ekki óáþekkt því sem er hjá okkur hefur okkur tekist að búa til þannig ferli að á tilteknum tímapunkti fer ákvörðunin frá Alþingi. Hana tekur framkvæmdarvaldið í stærri málunum og undirstofnanir taka lokaákvörðunina í ,,litlu málunum`` líkt og í þessu frv.

[17:15]

En hjá þeim sem við berum okkur mest saman við, t.d. í Noregi, kemur lokaákvörðunin í stærri virkjunum til staðfestingar Stórþingsins. Það er skoðun mín að við eigum að stíga það skref að ferli okkar endi nákvæmlega eins og hjá vinum okkar Norðmönnum. Þeir segja að til að byggja ný raforkuver þurfi að uppfylla kröfur sem eru settar í skipulags- og umhverfislögum alveg eins og hjá okkur en endanleg ákvörðun um nýjar stærri virkjanir er tekin af ráðherra og staðfest af Stórþinginu.

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um miklu minna mál, miklu minna á ákveðnum mælikvarða. En ég tel ástæðu til að nefna þetta vegna þess hvernig við höfum vanið okkur á hin síðari ár að vinna hér í þinginu og ákveða framkvæmdarvaldinu allt of stórar ákvarðanir.

Ég ætla að víkja að verndarsvæðunum sem eru kannski að inntaki til meginatriði þessa frv. Lagaumhverfið hefur breyst mjög mikið frá því að sérlög voru sett á sínum tíma, m.a. sérlög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta þýðir að í sumum tilfellum geta almenn lög í dag náð líka yfir þetta svæði. Hins vegar hefur þróun alþjóðasamfélagsins orðið sú að gerðir hafa verið alþjóðasamningar og við höfum undirgengist mikilvæga alþjóðasamninga sem líka setja á okkur kröfur gagnvart þessu þýðingarmikla og undurfagra svæði. Sumir þýða afdráttarlausar verndaraðgerðir, aðrir að við sýnum enn meiri aðgæslu í umgengni við náttúruna, viss dýr og fugla en annars staðar á þessum tilteknu svæðum. Ég nefni alþjóðasamninga eins og Ramsar-samninginn, samning um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamninginn. Þessi alþjóðasamvinna hefur opnað augu fólks í ýmsum löndum fyrir því að maður veður ekki áfram yfir hvað sem er með arðinn helstan að vopni. Maður staldrar við og stundum hafa góð mál komið að utan af því að hagsmunirnir hafa verið svo þröngir og sjónin á verndun og gildi svo afskaplega döpur að það hefur þurft fólk frá öðrum löndum til að kenna okkur betur hvernig á að umgangast landið sitt.

Tillagan í frv. er um að 200 metra svæði upp frá árbökkum Laxár og upp frá árbökkum Mývatns verði friðuð. Í þessu felst að verndun er aflétt á mjög stóru landsvæði. Verndun er aflétt á næstum öllum Skútustaðahreppnum og tilteknir staðir utan nýja verndarsvæðisins eru með mjög hátt náttúruverndargildi. Þarna þurfum við að gæta að okkur, þ.e. hvernig við vinnum vinnuna sem okkur er falin.

Það tekur tíma að friðlýsa og sá tími sem fer í að friðlýsa, ef þetta frv. fer fram og verður að lögum eins og lagt er til, skapar þarna bil og hættu á því að einhverjar framkvæmdir verði settar í forgang áður en lokið er við verndaráætlanir og friðlýsingar. Þetta dregur athygli að því að verndaráætlun hefur ekki verið unnin eins og lagt var til strax af þeim sem unnu þetta frv. sem lokið var reyndar í febrúar 2002. Það er miklu betra, og það eigum við að skoða í nefndinni og ég vona að samstaða náist um það, að eldri lög haldi gildi sínu þar til lokið verður að búa til lista yfir svæði sem nauðsynlegt er að friðlýsa. Umhvrh. á að setja reglugerð til að verjast mengun á vatnasvæði Mývatns og Laxár. Náttúruverndarsamtökin telja að þetta sé forsenda lagabreytinga. Þessi verkefni þarf að vinna af mikilli alúð og í góðri sátt við íbúana á svæðunum. Þess vegna viljum við fulltrúar Samf., sú sem hér stendur, Mörður Árnason og Bryndís Hlöðversdóttir, að það verði skoðað mjög vel í nefnd hvernig mörk votlendis og verndarsvæðis fara saman og hvort hægt sé að ná sátt um þetta, sem þeir sem unnu frv. lögðu svo mikla áherslu á, þ.e. að ljúka þeirri verndaráætlun vatnasvæðis sem átti að ljúka fyrir 1. janúar 2004, áður en frv. tekur gildi þannig að hvort tveggja taki gildi á sama tíma. Þar sem ekki náðist að vinna þessa áætlun er mjög mikilvægt að við skoðum samfelluna í þessum þáttum.

Það er grundvallaratriði að þessi mál séu vel unnin. Það er grundvallaratriði að maður skoði hagsmuni bæði heimamanna, sem þurfa meira svigrúm og hafa óskað eftir því að aflétt verði verndun á einhverjum hluta verndarsvæðisins, en jafnframt að við sýnum þau góðu vinnubrögð að ganga frá því sem mikilvægt er, eins og sem ég hef hér nefnt, áður en lögin taki gildi og skiljum ekki eftir op þarna á milli.

Nokkrir staðir eru nefndir sem álitamál vegna friðlýsingar. Ég bendi á Jarðbaðshóla, Bjarnarflag sunnan vegar og Leirhnjúka. Þar sem ég nefni Bjarnarflag hlýt ég að vekja athygli á ákvörðun sem Alþingi tók á næstsíðasta kjörtímabili eða í byrjun árs 1999. Þá var verið að vinna að og kom hér inn frv. um Villinganesvirkjun.

Mjög mikil áhersla er lögð á það á Alþingi að frumvörp fari í gegnum 1., 2. og 3. umr. og að mál komi inn rétta leið. En það merkilega gerðist við meðferð máls í iðnn. að þar komu menn sér saman um að taka inn í þessa heimild um Villinganesvirkjunina heimild um jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi við Námafjall með allt að 40 megavatta afli. Þar sem þetta mál fór nú svona undarlega leið og ósátt var um það var í framhaldi af því skoðað hvernig væri hægt að halda á málum og við 3. umr. málsins kom inn eftirfarandi ákvæði aftan við þessa heimild um Bjarnarflagsvirkjun, með leyfi forseta:

,,... að uppfylltum skilyrðum samkvæmt lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.``.

Nú er alveg ljóst að verði þetta frv. að lögum þá er í raun líka þetta verndarákvæði varðandi Bjarnarflagsvirkjun fallið brott. Það er eitt af því sem þarf að skoða í nefndinni hvað Alþingi finnist um það að þá standi eftir væntanlega opin heimild fyrir virkjun í Bjarnarflagi. Að minnsta kosti verður að skoða það mál að einhverju leyti upp á nýtt að mínu mati.

Um þetta vil ég segja að Samf. er alveg tilbúin til að skoða það mál. Við vildum fara varlega vorið 1999 og láta þetta mál ekki bara renna svona í gegnum þingið og það var af hálfu Samf. sem þetta ákvæði með tilvísun í lögin um Laxárvirkjun og Mývatn kom inn. Ég vil taka það fram hér að við erum alveg tilbúin að skoða það hvort í lagi sé að Bjarnarflagsvirkjun verði heimiluð. En það þarf að vera góð útfærsla og hún þarf að falla að landinu. Það verður líka að vera trúverðug lausn varðandi affallsvatn því að þar liggur mesta hættan fyrir lífríki Mývatns.

Mjög mikilvægt er að þingmenn geri sér grein fyrir því hvað felst í svona frv. og hvað felst í nýjum lögum sem við setjum. Satt best að segja þarf oft ótrúlega þekkingu á því sem hefur verið að gerast á liðnum árum til að maður átti sig á því hvað geti breyst með nýju frv. hverju sinni.

Við í Samf. erum alveg staðráðin í því að skoða verndarsvæðið, vissulega með tilliti til þess að við gætum alls staðar að því að fara að alþjóðasamningum og gætum að landinu og verndinni. En við viljum líka koma til móts við heimamenn með það að þeir geti hreyft sig meira og teljum að það sé stærsta málið fyrir heimamenn. Við teljum að það sé ekki stærsta málið fyrir heimamenn að hækka þessa stíflu. Það eru að verki einhver önnur öfl og aðrir hagsmunir sem við gerum lítið með.

Frú forseti. Að öðru leyti mun Mörður Árnason fara nánar yfir virkjunarmálin af hálfu okkar í Samf.