Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 18:58:57 (4522)

2004-02-23 18:58:57# 130. lþ. 69.18 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frv. til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Reyndar hefur það komið ítrekað fram við umræðuna að margir telja sjálft frv., innihald þess, ekki rísa undir þessari fyrirsögn því að öllu fremur sé verið að fjalla um að aflétta vernd fremur en að vernda. Það þarf þó að rýna svolítið í frv. til að átta sig á því hvað hér er á ferðinni því að allt yfirbragð er vissulega náttúruverndar og landverndar.

Í athugasemdum með frv. er farið langt aftur í söguna. Rakin er Laxárdeilan sem varð mjög hatröm í lok sjöunda áratugar og byrjun þess áttunda og lauk með sáttargjörð sem var undirrituð í maí 1973, en í byrjun næsta árs, 1974, tóku síðan gildi lög sem byggðu á þessari sáttargjörð.

[19:00]

Í athugasemdum með þessu frv. er vikið að og vitnað í greinargerð sem fylgdi því frv. en þar sagði m.a., með leyfi forseta:

,,,,Hið sérstæða vistkerfi Mývatns og Laxár hlýtur að vera mjög næmt fyrir hvers konar utanaðkomandi truflunum. Það verður aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess, og ber því að gæta ýtrustu varúðar í sambandi við hvers konar mannvirkjagerð og atvinnurekstur, sem ætla má að geti haft neikvæð áhrif á náttúrufar svæðisins. Sérstök lagasetning um takmarkaða náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu virðist ekki aðeins réttlætanleg heldur beinlínis nauðsynleg til þess að auðvelda náttúruverndaraðgerðir á svæðinu. Hér verður hvorki um þjóðgarð né friðland í anda náttúruverndarlaganna að ræða. Beiting ákvæða náttúruverndarlaga um náttúruverndaraðgerðir á svæðinu mundu því verða mjög í molum og án nokkurs samhengis. Með setningu sérstakra laga um þetta efni og reglugerða gefnum út samkvæmt þeim, mundi hins vegar vera hægt að sameina í eina heild öll þau ákvæði, sem lúta að náttúruvernd á þessu viðkvæma svæði.````

Í greinargerð með þessu frv. sem við ræðum hér segir m.a. um sérstöðu Mývatns og alþjóðlegar skuldbindingar, með leyfi forseta:

,,Mývatn hefur mikla sérstöðu og er raunar einstætt ef litið er til hnattstöðu þess. Vatnið býr yfir óvenjuauðugu gróður- og dýralífi. Vatnasvið þess nær jafnframt til Laxár, einnar víðfrægustu laxveiðiár landsins, og er vistkerfi og lífríki árinnar og vatnsins í raun órjúfanleg heild. Fegurð Mývatns og náttúru þess er einnig einstök. Er verndargildi svæðisins því afar mikið og má geta þess að Mývatn var fyrsta svæðið sem Ísland tilkynnti til alþjóðlegrar skrár um verndun votlendis sem komið var á fót á grundvelli Ramsar-sáttmálans.``

Þess má geta að rannsókn á svæðinu á grundvelli Ramsar-sáttmálans hefur ekki farið fram þrátt fyrir gefin fyrirheit en í þessu frv. er þó ákvæði um að slík verndaráætlun verði gerð fyrir 1. janúar árið 2006. Margur maðurinn spyr sig hvort það væru ekki hin eðlilegu vinnubrögð að ganga frá slíkum áætlunum áður en ákvarðanir eru teknar um nýtingu eða inngrip í náttúruna á þessu svæði.

Þetta er sem sagt yfirbragð þessa frv., náttúruvernd og landvernd, og er allt dásamað í greinargerð með frv.

Hvers vegna er þetta frv. fram komið nú? Er það vegna þess að það sé ásetningur umhvrn. og hæstv. umhvrh. að tryggja verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu? Nei. Þetta frv. er ekki sett fram með það að markmiði. Hæstv. umhvrh. sagði þingheimi frá því fyrr í dag, við upphaf þessarar umræðu, að þetta þingmál snerist í rauninni ekki um náttúruvernd, heldur um rekstrarörðugleika Laxárvirkjunar. Það var yfirlýsing sem fram kom frá hæstv. umhvrh. hér fyrr í dag.

Það er sjálfsagt að skoða rekstrarörðugleika Laxárvirkjunar, og brýnt að gera það, að sjálfsögðu, en að það skuli vera hæstv. umhvrh. sem hefur þar forgöngu finnast mér vægast sagt undarleg vinnubrögð. Í rauninni hefðum við átt að sjá hér í ræðustól í dag hæstv. iðnrh. (JBjarn: Hún er með leyfi.) vegna þess að þetta frv. fjallar fyrst og fremst um málefni sem heyra undir það ráðuneyti og hefur ekkert með umhverfisvernd að gera að öðru leyti en því að það er verið að létta af verndinni í stað þess að treysta hana í sessi. Um þetta mál fjallar frv., um skýrslu og áform Landsvirkjunar sem hver maður sem hefur aðgang að tölvu og neti getur flett upp á vef Landsvirkjunar. Hér er mat á umhverfisáhrifum, tillaga að matsáætlun. Þetta eru drög, það er rækilega tekið fram, en ásetningur Landsvirkjunar fer ekki á milli mála.

Hér er engin könnun á ferðinni í þeirra huga. Hér segir í inngangsorðum, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun áformar að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri og mynda lítið inntakslón til að koma í veg fyrir erfiðleika við rekstur Laxárstöðva. Stefnt er að hækkun stíflunnar um 10--12 m og verður stærð inntakslóns 0,25--0,34 ferkílómetrar. Í drögum að tillögu að matsáætlun sem hér eru lögð fram er fyrirhugaðri hækkun stíflunnar lýst og fjallað um erfiðleika við rekstur stöðvanna. Jafnframt verður fjallað um rannsóknir sem unnar verða í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.``

Hér er ekki talað í neinum viðtengingarhætti. Hér er talað í framsöguhætti, og boðhætti ef því er að skipta.

Síðan segir um tilganginn, með leyfi forseta:

,,Í Laxá er mikill sandburður sem veldur óeðlilega miklu sliti á vatnsvélum. Í miklum umhleypingum að vetri til myndast einnig ís- og krapastíflur við inntakið með þeim afleiðingum að rennsli um Laxárstöðvar minnkar. Slíkt ástand getur oft varað dögum saman og skapað óvissu um afhendingu raforku á Húsavík og í nærsveitum. Ástæða þess er sú að þetta svæði fær rafmagn frá Laxárstöðvum og einungis gamla línan frá virkjuninni til Akureyrar tengist landskerfinu. Ef saman færi bilun þeirrar línu, sem stundum gerist, og truflanir á raforkuframleiðslu í Laxá, þá gætu Húsavík og nágrannabyggðir búið við orkuskort í lengri tíma.``

Og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli hefur Landsvirkjun gert áætlun um að reisa nýja stíflu efst í Laxárgljúfri í stað núverandi stíflu.

Með nýrri stíflu myndast lítið inntakslón ofan hennar. Sandur og grjót sem Laxá ber með sér, sem nú fer í gegnum virkjunina og skemmir vélarnar, félli til botns í lóninu. Jafnframt kæmi lónið í veg fyrir alvarlegar ístruflanir þar sem vatnið yrði þá tekið af botni lónsins en ekki af yfirborði eins og nú er gert.``

Síðan er fjallað um mat á umhverfisáhrifum og tímaáætlun. Í lok þessa kafla er síðan fjallað um nauðsynleg leyfi. Og hvað segir um þau? Með leyfi forseta, segir hér orðrétt:

,,Fyrirhuguð stíflugerð og myndun inntakslóns ofan Laxárstöðva er háð eftirfarandi leyfum:

Leyfi iðnaðarráðherra samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og vatnalögum, nr. 15/1923.

Framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Aðaldælahrepps samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Leyfi Umhverfisstofnunar skv. lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár. Samkvæmt þessum lögum er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil á 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin, nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til.``

Og nú skulu menn hlusta. Áfram held ég með tilvitnun í skýrslu Landsvirkjunar:

,,Í lögunum eru auk þess ákvæði um að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu einnig óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra.``

Þar erum við komin að megininntaki þessarar fyrirhuguðu lagasetningar. Í 3. gr. frv. er vikið að þessu og þar segir, með leyfi forseta:

,,Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna eru óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar.``

Það er þetta ákvæði sem verið er í rauninni að nema tímabundið úr gildi með III. ákvæði til bráðabirgða. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.

Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2014.``

Sem sagt, í 10 ár á að siga Landsvirkjun á heimamenn. Það á að siga Landsvirkjun á heimamenn í áratug og reyna að fá þá til að hverfa af þeim verði sem þeir hafa staðið um þetta svæði. Það er markmið þessara laga.

Ég geri ekki lítið úr hugsanlegum rekstrarörðugleikum Laxárvirkjunar. Ég les og hlusta á það sem sagt er um það efni af mér fróðari mönnum. En ég vænti þess að landeigendur á þessu svæði hafi einnig kynnt sér málið áður en þeir ályktuðu eftirfarandi hinn 15. febrúar, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt lögum nr. 36/1974 er breyting á rennsli Laxár vegna raforkuframleiðslu óheimil. Með setningu laganna fullnægði Alþingi ákvæðum samnings Laxárvirkjunar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og ríkisstjórnar Íslands frá 1973`` --- Laxárdeilusamningarnir --- ,,varðandi þetta atriði en með samningunum var Laxárvirkjun heimiluð notkun vatns í Laxá til starfsemi sinnar af hálfu landeigenda. Samkvæmt gildandi samþykktum landeigendafélagsins er félaginu ekki unnt að heimila hækkun á yfirborði Laxár. Af þeirri ástæðu var tillögu þess efnis vísað frá afgreiðslu á fundi í félaginu fyrir fáum árum. Aukinn meiri hluta þarf til að breyta samþykktum félagsins.

Stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns hafa verið kynnt þau áform umhverfisráðherra að flytja á Alþingi tillögu um ákvæði til bráðabirgða er geri Umhverfisstofnun kleift, að undangengnu umhverfismati og að fengnu samþykki landeigendafélagsins, að heimila hækkun stíflu Laxárvirkjunar í Laxárgljúfri þrátt fyrir fyrrgreint bann laganna frá 1974.

Stjórninni eru ljós þau vandkvæði sem talin eru á starfrækslu Laxárvirkjunar vegna framburðar aurs og íss. Stjórnin telur unnt að ráða þar bót á án hækkunar á yfirborði árinnar. Stjórnin telur því ekki vera tilefni til að víkja með neinum hætti frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1974 í því skyni að heimila hækkun stíflunnar í Laxá og telur að með því væri vegið að forsendum þess samkomulags um starfrækslu Laxárvirkjunar sem gert var 1973.``

Félagsskapur landeigenda er með öðrum orðum að hafna þessu frv.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar. Að sjálfsögðu á að ganga í þessar rannsóknir fyrst, færa okkur niðurstöðurnar inn á þing og ræða síðan málið. Hvorki hann né ég erum að gefa þar með grænt ljós á einhverjar framkvæmdir á þessu svæði, síður en svo, en það hefðu verið mun eðlilegri vinnubrögð.

Ég ítreka að í skýrslu Landsvirkjunar er talað um fyrirhugaðar framkvæmdir. Það er enginn efi í hugum þeirra manna sem rita þá skýrslu. Þeir ætla að framkvæma. Og þeir hafa núna fengið veiðileyfi frá hæstv. umhvrh. landsins til að hamast á landeigendum og reyna að telja þá inn á að ráðast í þessar framkvæmdir. Um það snýst þetta mál.

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna í ósköpunum við erum með umhvrn. Hvernig stendur á því? Hvert er hlutverk umhvrn.? Hvernig skilgreinir hæstv. umhvrh. hlutverk sitt? Er það ekki að standa vörð um umhverfið og náttúruna í stað þess að ganga erinda iðnrn. og Landsvirkjunar fyrst og fremst? Ég hefði haldið að beita þyrfti umhvrn. og hæstv. umhvrh. miklum fortölum. Nei, það er hæstv. umhvrh. sem hefur frumkvæði í þessu máli, færir það inn í þingið og talar fyrir því. Ég ætla að vona að við ljúkum ekki þessari 1. umr. um málið án þess að hæstv. umhvrh. skýri hlutverk sitt og sinn hlut í þessu máli. (Umhvrh.: Ég mun halda ræðu að lokum.) Hún mun halda ræðu að lokum um það efni.

Það hefur komið fram við umræðuna að nánast öll náttúruverndarsamtök vara við þessum ráðagerðum. Það má vísa í nýlega ályktun frá stjórn Fuglaverndar sem ég ætla ekki að lesa upp að sinni þar sem farið er mjög rækilega í þessi mál og höfð í frammi ákveðin varnaðarorð. Það verður fróðlegt að heyra hvað hæstv. umhvrh. hefur að segja um þau varnaðarorð frá þessum aðilum og öðrum sem láta sig náttúruvernd á Íslandi varða.