Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 15:42:04 (4560)

2004-02-24 15:42:04# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það er ýmislegt sem mér vannst ekki tími til að koma að í fyrri ræðu minni um þetta mál í gær og auk þess spratt hér upp nokkuð lífleg umræða um þetta frv. til laga um verndun Laxár og Mývatns sem út af fyrir sig gæfi tilefni til ýmissa skoðanaskipta. Þar á meðal sat ég undir því af hendi hv. 2. þm. Norðaust., Halldórs Blöndals, að ég hefði talað af léttúð, eins og ég hygg að hv. þm. hafi orðað það, um þá hagsmuni sem fólgnir væru í áframhaldandi rekstri Laxárvirkjunar og þeim störfum sem sá rekstur skapaði í héraði. Það fólst ekkert slíkt í mínu máli og var ekkert sem gaf tilefni til að leggja þannig út af orðum mínum. Hitt er rétt og við því gengst ég og hefur aldrei staðið annað til að ég sagði, og það er mín meining í málinu, að ef svo reynist að rekstraraðili Laxárvirkjunar, sem í dag er Landsvirkjun, telur það ekki hagkvæmt að reka virkjunina áfram, verður auðvitað að sæta því. Og það er í allt öðru samhengi í dag hvort heldur litið er á atvinnuhagsmuni svo ég tali nú ekki um í orkubúskaparsamhengi þar sem Laxárvirkjun með sínum þremur stöðvum, Laxá I, II og III, telst í dag auðvitað í hópi minnstu eða minni vatnsaflsvirkjana, framleiðandi samtals líklega um 180 gígavattstundir á ári af raforku, í þremur stöðvum með 5, 9 og 13,5 megavatta afli. Og eins og þeir sem kunnugir eru virkjanaumræðum á líðandi stundu eru fljótir að átta sig á, eru þetta ekki mjög stórar tölur settar í samhengi við nýlegar vatnsaflsvirkjanir af stærri toganum þar sem þær minni í þeim flokki eru kannski 150 megavött í afli, eins og Krafla og minni virkjanirnar á Þjórsársvæðinu, en þær stærri 200 eða á þriðja hundrað megavött og allt upp í þau ósköp sem eiga koma út úr Kárahnjúkavirkjun sem eru einhver 700 megavött í afli ef ég man rétt og ég man nú ekki í svipinn hve margar gígavattstundir í orku á ársgrundvelli.

Hv. þm. Halldór Blöndal upplýsir að þarna séu jafnvel samtals allt að 10--12 ársverk ef umreiknað er yfir í ársverk í héraði öll störf sem má tengja rekstri Laxárvirkjunar, þar með talin sumarstörf, og að sjálfsögðu gerir enginn lítið úr því. Það munar um það þó að það séu ekki allt kannski störf sem hverfi því einhvers staðar verða þá væntanlega önnur til ef starfsemin þarna legðist af og virkjað yrði eða framleitt rafmagn sem þessu næmi annars staðar, hvar sem það nú yrði.

[15:45]

Ef til vill er það ein af ástæðum þess að Landsvirkjun telur Laxárvirkjun ekki í hópi sinna hagkvæmustu eininga að þarna eru þó nokkur störf bundin við tiltölulega litla orkuframleiðslu. Því er öðruvísi háttað í dag þar sem stærri vatnsaflsvirkjanir eru nánast sjálfvirkar og daglegt eftirlit með þeim felst fyrst og fremst í aflestri af mælum. Enda urðu ýmsir langleitir á Héraði sem ímynduðu sér að Landsvirkjun mundi setja upp stórt apparat á Austurlandi. Menn fóru að velta því fyrir sér hvort Landsvirkjun þyrfti ekki að byggja stórhýsi á Héraði í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. En þeir upplýstu að það yrði nú ekki því að afloknum byggingartíma fælist þetta fyrst og fremst í aflestri af mælum og þeir þyrftu þess vegna ekki að bæta við nema hafa kannski fáeina menn á svæðinu.

Auðvitað verður þetta bara að hafa sinn gang. Menn eiga að vera komnir upp úr þeim hjólförum í umræðum um umhverfismál á Íslandi að ætla að réttlæta hluti ef þeir eru ekki verjanlegir og réttlætanlegir af umhverfislegum ástæðum með því einu að ella kunni nokkur ársverk að vera í húfi.

Hvert komumst við yfir höfuð í umræðum um umhverfismál á Íslandi ef menn sitja alltaf fastir í því að þegar að einhverjum hagsmunum kemur þá verði ævinlega umhverfissjónarmiðin að víkja? Er hv. þm. Halldór Blöndal að halda því fram að hægt sé að fara af stað í nýja Laxárdeilu og stofna aftur til logandi illinda í héraði um stíflubyggingu efst í Laxárgljúfrum sem fyrir liggur að hörð andstaða er við á grundvelli þeirra áforma sem Landsvirkjun hefur látið vinna fyrir sig? Það liggur allt fyrir í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Halldór Blöndal hafi kynnt sér það. Hann hefði ekki farið hér til umræðunnar annars. Um leið og drög Landsvirkjunar að mati á umhverfisáhrifum á þeirri framkvæmdatillögu sem kom fram um mitt sl. sumar urðu hljóðbær vakti það hörð viðbrögð. Það liggur fyrir. Það er ekkert sem á að koma mönnum á óvart. Málflutningur hér í gær um að nauðsynlegt sé að stíga þetta skref, að taka ákvæði til bráðabirgða III inn í frv. til þess að menn geti farið að tala saman og ræða málin og leita samkomulags, er ekkert í tengslum við raunveruleikann. Það er ekki aðferðin að ætla að böðlast áfram til undirbúnings þessara framkvæmda\-áforma m.a. með því að afla þeim lagaheimilda í andstöðu sem fyrir liggur við þá sem þarf að ná samkomulagi við. Geta menn ekki fallist á að það sé alla vega ekki gæfuleg byrjun?

Nei, auðvitað átti að reyna að byrja á því að ná samkomulagi um það sem samkomulag gæti orðið um og lægi það fyrir í formi samstöðu Landeigendafélags Laxár og Mývatns og annarra viðkomandi aðila, ég tala nú ekki um ef stuðningur umhverfisverndarsamtaka svæðisbundið eða á landsvísu væru jafnframt bak við þau áform eða a.m.k. minni andstaða en nú blasir við, þá var tímabært frekar en ella að fara að hreyfa við málinu með því að afla lagaheimilda.

Þeirra lagaheimilda sem til þurfti var líka hægt að afla með öðrum hætti en þessum. Menn bera það hér fyrir sig að nauðsynlegt hafi verið að setja þetta ákvæði inn í lögin til þess að umhverfismat gæti farið fram, umhverfismat á framkvæmd sem þegar er hörð andstaða við. Ef eingöngu skorti lagaheimildina fyrir umhverfismatinu af hverju var þá ekki bráðabirgðaákvæðið þannig úr garði gert að þar stæði að það heimilaði að fram færi mat á umhverfisáhrifum en ekki að Alþingi afgreiddi lagaheimild handa Umhverfisstofnun til að samþykkja stífluhækkunina og allra síst ótilgreint því að það eru engin takmörk í heimildinni eins og ákvæðið til bráðabirgða er úr garði gert hér?

Það segir bara, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu ...``

Það er verið að leyfa sjálfa stífluhækkunina með þessu. Það þurfti ekkert að vera inni í lagaheimild til þess að láta fara fram umhverfismat. Það var út af fyrir sig hægt að skutla inn heimild til þess að taka af vafa ef menn telja það vera eitthvert óvissusvæði vegna bannákvæðanna í 3. gr. að ... (HBl: Af hverju les ekki þingmaðurinn alla lagagreinina fyrst hann er að vitna til hennar ...?) Ég er nú búinn að lesa hana alla hérna, hv. þm. (HBl: ... ekki í þessu samhengi af því að það skiptir höfuðmáli ...) Ég er búinn að lesa alla ... (Gripið fram í.) (HBl: ... af því að þá mundi röksemd ...) Ég er búinn að lesa allt þetta ákvæði til bráðabirgða III a.m.k. tvisvar hér í umræðum í gær og ég hélt að hv. þm. Halldór Blöndal kynni það. En það virðist þurfa að lesa það fyrir hann í hvert eitt skipti. (HBl: Þingmaðurinn kann ...) (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Hv. þm. virðist ekki átta sig á því að ég var að vekja sérstaka athygli á því að í ákvæði til bráðabirgða III felst meira en bara ótvírætt pósitíft ákvæði til að heimila umhverfismatið. Þar felst heimild fyrir sjálfri stíflunni. (HBl: Ekki skilyrðislaust.) Umhverfisstofnun (Forseti hringir.) fær í hendur heimild til að hækka stífluna, hækka stíflu, hækka vatnsborð í Laxá sem er bannað samkvæmt gildandi lögum. Hefur hv. þm. Halldór Blöndal ekki áttað sig á því? Það er algjörlega gagnslaust ... (Forseti hringir.) Frú forseti. Var eitthvað athugavert í mínu ...?

(Forseti (SP): Forseti vill fara fram á það að hv. þingmenn veiti ræðumanni frið til þess að halda sína ræðu.)

Það er út af fyrir sig vel þegið, frú forseti. En ég treysti mér nú ágætlega til þess að halda hér uppi gáfulegum samræðum við hv. þm. Halldór Blöndal úti í sal svona innan hóflegra marka, sem eins og kunnugt er er ákaflega umburðarlyndur í fundarstjórn og leyfir frammíköll og mér finnst að það eigi að vera gagnkvæmt, að þegar hv. þm. situr úti í sal en ekki í forsetastól þá eigi það líka að gilda.

Nei, frú forseti. Þetta mál er ósköp einfalt þó að menn reyni að færa annað fram hér, þeir sem helst hafa reynt að standa í málsvörn fyrir gjörninginn, þ.e. hæstv. umhvrh. og hv. þm. Halldór Blöndal. Þetta er einfalt á grundvelli samkomulagsins í Laxárdeilunni í maí 1973 þar sem Laxárvirkjunarstjórn féll frá öllum hugmyndum um að hækka vatnsborðið í Laxárdal, í inntakslóni ofan við stíflur. Gegn því féll Landeigendafélag Laxár og Mývatns frá lögbanni sem Landeigendafélag Laxár og Mývatns hafði í höndum sér og gat komið í veg fyrir á hvers grundvelli að vatn færi inn á nýju vélarnar í Laxárvirkjun III. Það er þetta tromp sem Landeigendafélag Laxár og Mývatns vill ekki missa úr sínum höndum af eðlilegum ástæðum því að það veikir stöðu heimamanna til þess að hafa forræði í málinu, stöðu sem þeir hafa nú í höndum samkvæmt samningnum sem ekki hefur verið sagt upp, löggerningi undirrituðum af forsrh. ríkisstjórnar Íslands og lögunum sem sett voru á grundvelli hans í framhaldinu. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Halldór Blöndal né hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur að reyna að tala um þetta með neinum öðrum hætti. Þetta er svona. Þetta er nákvæmlega svona.

Viðbárur af því tagi að það þurfi að fara þessa leið til þess að heimila umhverfismat á framkvæmd sem þegar liggur fyrir að andstaða er við er auðvitað ekkert nema tátólógía. Það er rökleysa að setja málin þannig fram. Ef eina ástæðan fyrir þessu ákvæði til bráðabirgða III er að menn vilja eyða óvissu um að það megi fara fram umhverfismat, af hverju er það þá ekki það sem er heimilað en lögin látin standa óbreytt að öðru leyti þangað til niðurstaða liggur fyrir í málinu, þangað til samkomulag málsaðila liggur fyrir? Á grundvelli slíks samkomulags væri hægt að lyfta lagatakmörkununum sem í gildi eru. Þetta skilur hvert mannsbarn nema þá þessir tveir, hv. þm. og hæstv. ráðherra, sem hér hafa talað.

Auðvitað vilja heimamenn ekki missa þessi tök á málinu úr höndum sér með því að opna fyrir það hér að Umhverfisstofnun geti heimilað hækkun stíflunnar sem er bönnuð samkvæmt lögum í dag, að undangengnu hverju? Mati á umhverfisáhrifum sem ekki einu sinni er hægt að treysta að dygði þó neikvætt yrði vegna þess að ráðherra hefur í höndunum valdið til að snúa því við eins og víðfrægt er á Íslandi og í fleiri löndum því að Íslendingar sitja uppi með umhverfisráðherra sem hefur endurtekið snúið við afdráttarlausri synjun á framkvæmdum á grundvelli mats á umhverfisáhrifum. Verður lengi í minnum hafður sá gjörningur sem hæstv. ráðherra réðst í þegar hún sneri við afdráttarlausri synjum Skipulagsstofnunar á byggingu Kárahnjúkavirkjunar vegna umtalsverðra óafturkræfra og neikvæðra umhverfisáhrifa.

Menn treysta því þess vegna að sjálfsögðu ekki og þá er bara það eftir að Landeigendafélag Laxár og Mývatns hefði að vísu stöðvunarvald í málinu. En í tíu ár væri hægt að beita menn þrýstingi af því tagi sem glittir í í málflutningi hv. þm. Halldórs Blöndals þegar hann fer að tala um störfin tíu og hagsmunina í héraði. Við vitum hvernig slíkt hefur iðulega verið gert. Við vitum það. Miklir fjármunir eru á ferð þar sem hinn orkugráðugi iðnaður á í hlut. Hvað er Landsvirkjun að gera þessi árin? Hún er að setja mikla fjármuni í að kaupa sér góðvild og smyrja hjólin vítt og breitt. Hún setur peninga af mikilli gæsku í þjóðminjar, landvörslu, menningarstarfsemi og styrkir jafnvel sveitarfélög til rekstrar. Að hinu leytinu er hægt að segja: ,,Nei nei nei, við hættum allri uppgræðslu. Við lokum bara þessari virkjun ef þið eruð ekki góðir.`` Það er hægt að beita þrýstingi á aðra hliðina og veifa fjármunum á hina hliðina. Það getur reynst erfitt fyrir menn að standast gegn slíku.

Skilja menn ekki að menn hafa ekki áhuga á að missa málin inn í þann farveg að hafist gæti tíu ára þóf þar sem eina bremsan sem eftir væri væri þessi sem hér er inni í lagaákvæðinu hvað varðar samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns? Og hvers vegna skyldi það nú vera þarna inni? Það er verið að reyna að segja okkur að það sé gert til þess að styrkja stöðu landeigendafélagsins. Þess þarf nú ekki ef menn láta lögin í friði sem banna allar svona framkvæmdir. Það er sko rækilega tryggt eins og málin standa í dag. Það er verið að opna það allt saman upp með þessum málflutningi. Nei, ástæðan er auðvitað sú --- og það þarf ekki að þakka það þó Landeigendafélags Laxár og Mývatns sé getið í þessum texta --- að það er í gildi samningur sem tryggir landeigendafélaginu þá stöðu, löggerningur sem hægt væri að fara með fyrir dómstóla ef reyna ætti að fara fram hjá honum. Það er alveg ljóst. Ég tel að vísu að þessi framganga ríkisstjórnarinnar sé brot á þessum samningi eftir sem áður vegna þess að hann gerir ekki ráð fyrir því að aðhafst sé í málunum á þann hátt sem þarna á að gera.

Frú forseti. Ég hefði gjarnan viljað, ef tíminn leyfði, rifja aðeins betur upp andrúmsloftið sem var í kringum Laxárdeiluna hina fyrri því að ég held að það sé greinilega ekki vanþörf á. Mér er það mjög í minni hvernig það var t.d. síðsumars 1970. Þannig háttaði til að ég byrjaði þá í Héraðsskólanum á Laugum um haustið og heita má að héraðið hafi logað stafna á milli vegna þessara átaka. Svo vildi til að stuttu eftir að ég kom í skólann á Laugum þá fengum við frí í einum bekknum fram að hádegi vegna þess að kennarinn þurfti að bregða sér af bæ. Síðar kom í ljós að hann hafði þá verið tekinn til yfirheyrslna vegna þess að hann var í hópi sprengjumanna við Miðkvísl og við vorum ákaflega stolt af okkar manni þegar hann kom til baka til kennslu í eftirmiðdaginn og það var mikið klappað fyrir honum. Um það má lesa hér í þessari ágætu bók sem ég hef áður vitnað til og nafn þessa ágæta kennara míns á þeim tíma úr Mývatnssveit er þar á skrá yfir þá 65-menninga sem ákærðir voru síðar vegna aðildar sinnar að því að rjúfa stífluna í Miðkvísl og hlutu dóm. Að vísu var fallið frá refsingu sem leysti það vandamál sem einnig var rætt, þ.e. hvernig ætti að fara að því að tukthúsa þessa bændur í Mývatnssveit og í uppsveitum Þingeyjarsýslu og hvernig ætti að sjá um gegningar búfénaðar á meðan þeir tækju út sína refsingu. Komu þá fram hugmyndir um heimangöngufangelsi á Skútustöðum eins og einhverjir kannski muna. En það er naumast tími til að fara dýpra út í þá sálma, frú forseti.

[16:00]

Því hefur verið kastað fram í umræðunni, án þess að farið hafi verið út í það nákvæmlega, að á einhverjum tíma hafi landeigendur ljáð máls á umtalsverðri stífluhækkun þar sem þarna er rætt um 10--12 m háa stíflu samkvæmt þessum framkvæmdahugmyndum Landsvirkjunar. Ég held að það sé rétt að fram komi, til að öllu sé til haga haldið í því sambandi, að slíkar hugmyndir voru aldrei á öðru en umræðustigi í tengslum við þáverandi áform um að gera Laxá laxgenga upp á Laxárdal. Þær hugmyndir voru börn síns tíma. Nú er fyrir löngu fallið frá öllum hugmyndum um slíkt sem betur fer enda hafa viðhorf manna til umhverfismála víðast hvar breyst, þó kannski ekki í ríkisstjórn Íslands og hjá allt of mörgum sem að henni standa. Að þessu leyti er a.m.k., að ég held, alger sátt um að ekki komi til greina að hrófla við Laxá ofan Brúa þar sem er einn merkilegasti urriðastofn í heimi og menn eru sáttir við að áin haldist í þeirri mynd áfram.

Þar með eru allar þær hugmyndir sem tengdust gerð laxvegar upp gljúfrin lagðar til hliðar og engin áform um og enginn áhugi á að hækka vatnsborðið af þeim sökum. Á einhverjum tíma var slíkt talið nauðsynlegt til að unnt væri að gera farveginn laxgengan.

Ég minni á það að lokum, frú forseti, að nú þegar liggur fyrir andstaða Landeigendafélags Laxár og Mývatns, sameiginleg ályktun stjórnar þess félags. Ég bið menn að færa rök fyrir því ef þeir halda að þar sé ekki talað í umboði félagsmanna. Fyrir liggur andstaða allra helstu umhverfisverndarsamtaka á svæðinu og á landsvísu, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Andstaða Fuglaverndarfélagsins liggur fyrir og jafnframt andstaða samtaka stangveiðimanna. Þarf hæstv. umhvrh. meira?