Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:06:26 (4563)

2004-02-24 16:06:26# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég held að hv. þm. viti er áætlað að taka sandinn í inntakslóninu samkvæmt þessari hugmynd með 10--12 m. Þess vegna þurfa þetta að vera 10--12 m, út af sandinum. En það eru uppi hugmyndir, sérstaklega heimamanna, um að taka sandinn annars staðar. Ég tel að það geti verið mjög skynsamlegt og mér er kunnugt um að menn eru að skoða það í viðræðum sín á milli. Það er alls ekki þannig að þetta ákvæði opni fyrir að auðvelt verði að fara í stífluhækkun.

Í fyrsta lagi þarf Alþingi að samþykkja bráðabirgðaákvæðið. Síðan þarf að fara fram umhverfismat, fullburða umhverfismat með öllum þeim rannsóknum sem því fylgja. Auk þess þarf að vera sátt á milli heimamanna og Landsvirkjunar um hvernig þetta umhverfismat á að líta út, eigi heimamenn að vera fúsir til að skoða einhverjar útfærslur í framhaldinu. Að sjálfsögðu þurfa menn að vera þokkalega sáttir við það umhverfismat sem fram fer. Síðan þarf landeigendafélagið að samþykkja viðkomandi útfærslu, m.a. á grundvelli umhverfisáhrifa og Umhverfisstofnun að gefa leyfi. Hún getur tekið tillit til umhverfismatsins í því sambandi. Svo þarf sveitarfélagið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Það er ekki þannig að það sé mjög einfalt mál að fara í hugsanlegar breytingar á þessu svæði, alls ekki. Þetta er geysilega þungt ferli, mjög margir varnaglar og tryggt að heimamenn verða að samþykkja viðkomandi framkvæmd, annars verður ekki af henni. Það er sem sagt verið að lögfesta neitunarvald heimamanna.