Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:35:32 (4572)

2004-02-24 16:35:32# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er umhugsunarefni hversu greiðlega ýmsir af forustumönnum stjórnarandstöðunnar láta í ljósi þá skoðun að ekki sé ástæða til að kanna möguleika á því hvort samkomulag náist um að hækka stífluna við Brúar til að Laxárvirkjun verði áfram rekin. Nú hafa þeir báðir staðið upp, formaður Samf. og formaður Vinstri grænna, og má kannski segja að þetta sé það eina sem þeir eru sammála um, að ekki sé ástæða til að athuga hvort rétt kunni að vera að hækka stífluna til að reyna að tryggja áfram rekstur Laxárvirkjunar. Þó er báðum þessum mönnum kunnugt að það liggur fyrir álit frá Tuma Tómassyni um að það mundi bæta lífríki árinnar ef stíflan yrði hækkuð. Báðir þessir menn eru miklir áhugamenn í orði kveðnu fyrir bættu umhverfi, en þarna eru þeir sammála.

Það var að heyra á hv. 7. þm. Norðvest., Kristni H. Gunnarssyni, að það væru ekki aðrir sem sæktu á í málinu en Landsvirkjun. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Annars veit maður satt að segja ekki að hve miklu leyti maður á að tala til hans og um skoðanir hans. Í Morgunblaðinu í morgun sá ég að hann hafði gefið sig á tal við þingfréttaritara til að óska eftir því að sú skoðun kæmi fram áður en hann tæki til máls í þinginu að lónið við Laxá yrði stærsti sandkassi á landinu og var með fleipri eins og þessu að gera lítið úr vilja fjölda manns sem stendur á bak við það að koma Laxárvirkjun í rekstrarhæft stand. Auðvitað getum við sagt að málefni sem varðar Þingeyinga sé ekki einvörðungu málefni Þingeyinga, heldur málefni alls landsins. Við höfum litið svo á, bæði í jákvæðri og neikvæðri merkingu. Það er satt að segja mjög ómerkilegt af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að taka málið upp með þessum hætti. Á hinn bóginn má kannski segja að það sé í samræmi við annað, að hann hefur mest gaman af því að vekja athygli á sér með því að búa til ágreining við ríkisstjórnina í málum þar sem atkvæði hans skiptir engu máli.

Svo ég snúi mér aftur að virkjuninni og því sem hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, sagði get ég vel sagt eins og hann að full ástæða er til að rekja málið frá byrjun. Laxárvirkjun á sér langa og merka sögu og til þess að þar sé öllu til skila haldið, líka því sem hv. þm. vill ekki heyra, var Gljúfurversvirkjun slegin út af borðinu 1970 af þáverandi forsrh., Jóhanni Hafstein, sem hv. þm. talaði niður til úr þessum ræðustól í gær. (SJS: Nei.) Það þótti mér hv. þm. ekki til sóma. (SJS: Ég mótmæli ... mótmæli ...) Hv. þm. gerði það og getur farið fram (SJS: Í hverju fólst ...?) og lesið það sem hann sagði. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að hv. þm. viti ekki alltaf hvað hann segir. Ég vil halda þessu vel til haga. Jóhann Hafstein lagði sig allan fram um að leysa þá deilu eins og þeir vita sem muna Laxárdeiluna.

Á hinn bóginn gerðust atburðir mjög hratt. Eins og ég tók fram í gær voru kosningar í nánd sem spilltu fyrir því að hægt væri að leiða málið til lykta fyrir kosningarnar 1971, af því að þetta var orðið að kosningamáli. Þetta vitum við sem upplifðum þær deilur. Eftir deilurnar töluðu menn með ýmsu móti. Þeir sem harðast höfðu gengið fram í deilunni og voru ósveigjanlegastir vildu síðar meir ekki við það kannast. Það er eins og gengur.

Sú skoðun er svolítið nýstárleg að halda því fram eins og gert var af hv. 7. þm. Norðvest. áðan, Kristni H. Gunnarssyni, að það væri undarlegt að vísa til þess eins og gert er í grg. með frv., með leyfi forseta. Talað er um að bráðabirgðaákvæðinu sé:

,,ætlað að tryggja að lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu standi ekki í vegi fyrir framkvæmdum sem aðilar máls, þ.e. Landsvirkjun og Landeigendafélag Laxár og Mývatns, yrðu sammála um að nauðsynleg væru til að leysa þá erfiðleika sem verið hafa í rekstri virkjunarinnar að því gefnu að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hefði farið fram.``

Það var að heyra á hv. þm. að hann hugsaði sér að Alþingi tæki að sér að vera einhvers konar yfirdómari varðandi umhverfismöt, að það ætti að vera einhver sérstakur fyrirvari í málinu þannig að ef ágreiningur kæmi upp um það hvort umhverfismat leyfði eða leyfði ekki þessar framkvæmdir, skyldi Alþingi skera úr því. Þetta er algerlega ný hugsun. Ég hygg að það sé ekki einn einasti þingmaður nema þessi þingmaður Vestfirðinga sem er þeirrar skoðunar, enda sennilega sagt án þess að hugsa málið til enda.

Mér þótti á hinn bóginn ánægjulegt að heyra að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, af því hann er formaður iðnn., skyldi ekki alveg slá loku fyrir það að upplýsingar í málinu gætu haft áhrif á það hvort hann vildi samþykkja frv. eða ekki, en það er einmitt ætlast til þess að nefndin kynni sér málið til að fá skoðanir á því og dragi ályktanir af þeim upplýsingum sem koma fram.

Það sem hefur komið nýtt fram í dag í umræðunum er aðallega tónninn í máli Steingríms J. Sigfússonar, hv. 5. þm. Norðaust. Hann talaði um heimamenn. Hann talaði eins og þeir stæðu allir á bak við það mál sem hann hafði að flytja og hækkaði röddina. ,,Auðvitað vilja heimamenn``, sagði hv. þm. og barði sér á brjóst og var algerlega andvígur því að málið fengi eðlilega skoðun. Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur hverjir séu heimamenn.

Liggur fyrir, svo ég spyrji hv. þm., hvað hreppsnefnd Aðaldælahrepps vill? Hefur hreppsnefnd Skútustaðahrepps tekið til máls? Hvað er að segja af þeim Húsvíkingum sem einnig eiga aðild að málinu? Ég hef ekki séð neitt frá neinum þessara sveitarstjórnarmanna sem bendir til þess að það sé eining í öllum þessum sveitarstjórnum gegn því frv. sem hér liggur fyrir og að sveitarstjórnir allra þessara sveitarfélaga séu einhuga um að ekki sé ástæða til að athuga möguleika á því að slá þrjár flugur í einu höggi, hækka stífluna, bæta seiðabúskap í Laxá og með því að hækka stífluna er líka verið að tryggja áframhaldandi rekstur Laxárvirkjunar. Það er líka verið að tala um að setja sandgildru í Kráká. Hvers vegna finnst hv. þm. það svo neikvætt að athuga hvort hagkvæmt sé að setja sandgildru í Kráká að hann hefur ekki minnst einu einasta orði á það mál og talar eins og sá möguleiki geti ekki falið það í sér að hægt sé að ná sama árangri varðandi sandburð með því að lækka nokkuð stífluhæðina?

[16:45]

Ég vil líka spyrja: Hvernig stendur á því að hv. þm. talar í þeim dúr að landeigendafélaginu hafi aldrei komið til hugar hækkun á stíflunni? Hvers vegna talar hann í þeim dúr? Hann slær sér á brjóst og segir að það sé reginhneyksli ef gefið sé undir fótinn með að það megi hækka stífluna. Af hverju segir hann að landeigendafélagið sé sjálfkrafa á móti því þegar fyrir liggur samþykkt í landeigendafélaginu um 8 m hækkun?

Menn geta að vísu sagt að þær forsendur sem voru fyrir þeirri hækkun á sínum tíma séu að vissu leyti brostnar. Ég er algjörlega sammála því að sú gamla samþykkt gildir ekki varðandi þá hækkun sem hér er verið að tala um. Ég er algjörlega sammála því. En þetta sýnir okkur að landeigendafélagið var á sínum tíma tilbúið að samþykkja hækkun á stíflunni ef með því næðist fram ávinningur sem þeir töldu mikils virði. Þannig er það enn í dag.

Fjöldi manna í landeigendafélaginu og fjöldi manna í þessum byggðum Þingeyjarsýslu vill, bæði vegna atvinnuhagsmuna annarra og líka sinna eigin, láta athuga möguleika á því hvort þessi hækkun kunni ekki að verða skynsamleg.

Þegar því er haldið fram að Landsvirkjun sé búin að festa sig í ákveðinni hæð varðandi hækkun stíflunnar þá er það líka rangt. Það á hv. þm. að vita. Þar er verið að velta fyrir sér nýjum möguleikum. Markmiðið er þrenns konar eins og ég sagði.

Menn eru að velta fyrir sér hvernig hægt sé að draga úr sandburði Krákár. Eins og við vikum að í gær, bæði ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þá hefur milljónatugum, ég skal ekki segja hvort Landsvirkjun hafi varið 50 millj. kr. og eigum við að segja landeigendafélagið hafi kannski varið 3 eða 5 millj. kr. eða einhverju þvílíku, verið varið til að græða upp löndin í Krákárbotnum og mynda þannig kraga til verndar byggðinni í Mývatnssveit. Það er auðvitað mjög mikils virði og ástæðulaust að gera lítið úr því. Eins og hv. þm. sagði hefur þetta valdið því að sandburður í Kráká hefur minnkað þannig að farvegurinn er að dýpka eftir því sem norðar dregur. Nú er verið að tala um hvort rétt geti verið að setja sandgildru í Kráká til viðbótar við þær ræktunarframkvæmdir sem þar eru til að draga úr sandburði í Efri-Laxá og í Neðri-Laxá. Þetta vitum við báðir, ég og hann, að er af hinu góða.

Eins og ég sagði í gær líka er auðvitað hægt að hugsa sér, ef maður er eingöngu að velta fyrir sér laxveiðunum einum, að sprengja í loft upp, bæði Laxárvirkjun og stífluna í Efri-Laxá eins og hv. þm. vék að í gær að væri kannski rétt og fá á nýjan leik klakastíflurnar og allt sem þeim fylgdi. Það er auðvitað sjónarmið. Hv. þm. talaði um að endurheimta hin fallegu gljúfur. Auðvitað er það sjónarmið.

Ég er aftur þeirrar skoðunar að stífla geti verið af hinu góða þó hún sé úr steinsteypu. Ég er þeirrar skoðunar að ef við, með tiltölulega lítilli framkvæmd sem ekki er til lýta á landinu, getum bæði bætt lífríkið, haft af þjóðhagslegan ávinning og styrkt þær veiku stoðir sem eru undir byggð í Suður-Þingeyjarsýslu, ég tala ekki um ef til viðbótar er sá ávinningur að vinna að landgræðslu og tökum á sandburðinum, þá vil ég skoða þann möguleika. Ef við náum þessu öllu þá vil ég að sá möguleiki sé athugaður til hlítar. Og ég vil líka að það sé alveg ljóst af minni hálfu að það er engin ástæða til að flýta sér í þessu máli.

Hv. þm. fann að því að þetta ákvæði væri til tíu ára og taldi að það væri of langur tími, ekki bara að það væri of langur tími sem heimildin stæði. Mér fyndist undarlegt ef þessi heimild yrði þannig stillt að hún yrði bara til eins eða tveggja ára með öllum þeim þrýstingi og ófriði sem slíku óðagoti fylgdi. Menn þurfa stundum tíma til að átta sig á nýjum viðhorfum og nýjum möguleikum. Þess vegna er ég einmitt mjög ánægður yfir því að þessi langi tími skuli gefinn til að heimamenn geti áttað sig á stöðunni. Ég lýsi fullu trausti á því að Landeigendafélag Mývatns og Laxár muni standa á rétti sínum eins og það hefur gert, sé óhrætt við að samþykkja nýtilega hækkun á stíflunni ef þeir telja það gott fyrir byggðarlagið og þá sjálfa, en standi á móti slíkri hækkun ef þeir telja það til bölvunar. Mér finnst það alveg sjálfsagt að þeir vinni á þeim forsendum.

Mér finnst sjálfsagt að við gerum okkur grein fyrir því hér á Alþingi að þeir eiga líka sinn rétt sem vilja láta athuga þessi mál. Þeir eru líka heimamenn. Það er ekki hægt að tala niður til þeirra með þeim hætti að ekki sé undir nokkrum kringumstæðum hægt að samþykkja þetta. Ég get ekki hugsað mér að tala niður til þeirra með þeim hætti að segja: Ég vil ekki undir neinum kringumstæðum samþykkja að athugað verði út í hörgul hvort samkomulagsgrundvöllur sé í þessu máli. Það er mikið í húfi. (SJS: Það hefur enginn sagt.) Það er mikið í húfi.

Þeir menn sem taka þetta mál upp með þeim tóni að boða átök og predika að Þingeyingar séu komnir í einhverjar herbúðir standa ekki fyrir góðum málstað. Þingeyingar eru vel menn til að leysa þessi mál. Það er ástæðulaust fyrir þá sem eru utan héraðs að vera með frýjuorð í því sambandi. Alveg ástæðulaust.